Þór vann baráttusigur og rauk upp töfluna
Þórsstelpurnar unnu nokkuð öruggan sigur á Aþenu í 7. umferð Bónusdeildar kvenna í körfubolta í kvöld eftir mikinn baráttuleik, vel studdar af fjörlegum rúmlega 150 áhorfendum. Að lokum munaði 14 stigum og Þórsliðið stökk úr neðsta sæti deildarinnar upp í 5. sæti. Fullt hús á heimavelli en fjögur töp á útivelli hingað til.
Gestirnir að sunnan byrjuðu leikinn mun betur og skoruðu tíu fyrstu stig leiksins. Þórsstelpurnar hrukku ekki í gang fyrr en eftir rúmar þrjár mínútur þegar þær skoruðu sína fyrstu körfu og ekki leið á löngu þar til þær náðu að jafna og komast yfir. Aþena reyndar með eins stigs forystu í lok fyrsta leikhluta, en sú forysta hvarf fljótt þegar leikur hófst að nýju. Þórsliðið hélt ágætis frumkvæði út fyrri hálfleikinn og leiddi með fimm stigum í leikhléi, 40-35.
Leikurinn var áfram nokkuð jafn nánast alveg til loka, mikil barátta á báða bóga eins og jafnan þegar þessi lið mætast. Þórsliðið hafði þó ávallt frumkvæðið og þrátt fyrir ákafar og á köflum nokkuð harkalegar tilraunir gestanna til að brúa bilið létu Þórsstelpurnar forystuna aldrei af hendi og náðu 14 stiga forskoti seint í þriðja leikhluta. Eftir örlítið hikst Þórsliðsins í upphafi fjórða leikhluta minnkaði Aþena muninn niður í fjögur stig, en þá sögðu okkar konur hingað og ekki lengra og kláruðu leikinn af öryggi, unnu að lokum 14 stiga sigur.
Hástökkvarar umferðarinnar
Þetta er þriðji sigur liðsins í deildinni í sjö leikjum í vetur og hafa þeir allir komið á heimavelli. Það er svo til marks um hve jöfn deildin hefur verið hingað til að með sigrinum í kvöld tóku Þórsstelpurnar stökk úr botnsæti deildarinnar upp í 5. sætið. Reyndar eru fimm lið jöfn í 4.-8. sæti með þrjá sigra, auk Þórs eru það Hamar/Þór, Tindastóll, Grindavík og Stjarnan. Aþena og Valur eru þar fyrir neðan með tvo sigra, en í efstu sætunum eru Haukar, Keflavík og Njarðvík.
Esther Fokke var öflug í leiknum í kvöld, skoraði 22 stig, tók tíu fráköst og átti fjórar stoðsendingar. Mynd: Skapti Hallgrímsson.
Esther Fokke skoraði mest í Þórsliðinu, 22 stig, og Maddie Sutton tók að venju flest fráköst, hún skoraði 18 stig og tók 17 fáköst. Þórsliðið hafði mikla yfirburði yfir lið Aþenu í fráköstum talið, tók 44 fráköst á móti 30. Maddie var einnig með flest framlagsstig í Þórsliðinu, eða 31, og Esther með 27. Hjá Aþenu skiptist stigaskorið á næstum alla leikmenn, en Elektra Mjöll Kubrzeniecka skoraði 15 stig.
- Gangur leiksins: Þór - Aþena (16-17) (24-18) 40-35 (20-18) (22-15) 82-68
- Byrjunarlið Þórs: Amandine Toi, Emma Karólína Snæbjarnardóttir, Esther Fokke, Eva Wium Elíasdóttir, Maddie Sutton.
- Staðan í deildinni
- Ítarleg tölfræði leiksins
Helstu tölur leikmanna Þórs, stig/fráköst/stoðsendingar:
- Esther Fokke 22 - 10 - 4
- Maddie Sutton 18 - 17 - 5 - 31 framlagsstig
- Amandine Toi 15 - 3 - 2
- Emma Karólína Snæbjarnardóttir 12 - 5 - 1
- Eva Wium Elíasdóttir 10 - 2 - 5
- Natalia Lalic 5 - 3 - 0