Misstu af bronsinu – Dagur í liði mótsins
KA-maðurinn Dagur Árni Heimisson var valinn í úrvalslið EM U18 ára sem lauk í Svartfjallalandi í dag. Íslenskaliðið tapaði bronsleiknum á móti Ungverjum, 34-36, og má segja að umdeildur brottrekstur Dags Árna hafi riðið baggamuninn þegar á reyndi.
Íslenska liðið hafði fjögurra marka forystu þegar sex mínútur voru eftir, 31-27, en Ungverjar náðu að vinna það upp og var jafnt, 32-32, eftir venjulegan leiktíma. Ungverjar höfðu svo betur í framlengingunni og unnu að lokum tveggja marka sigur. KA-maðurinn Jens Bragi Bergþórsson skoraði sex mörk í leik dagsins og Dagur Árni fjögur.
Handboltavefurinn handbolti.is ræddi við Heimi Ríkarðsson, þjálfara liðsins, eftir leik í dag og þar segir hann meðal annars að rauða spjaldið sem Dagur Árni fékk þegar rúmur stundarfjórðungur var eftir af leiknum hafi verið rangur dómur og reynst liðinu dýr þegar upp var staðið og hreinlega kostað íslenska liðið sigurinn. Það hafi sést vel á lokakaflanum þegar á reyndi.
Dagur Árni skoraði 51 mark á mótinu og var 12. markahæstur.