Frábært einvígi en grátlegur endir
Þórsarar töpuðu með eins marks mun, 24:23, fyrir Fjölni í kvöld í síðasta úrslitaleik liðanna um sæti í efstu deild í handbolta næsta vetur. Fjölnismenn fara því upp í Olísdeildina en Þórsarar sitja eftir sárt ennið.
Liðin mættust á heimavelli Fjölnis í Egilshöll. Tæpara getur það ekki verið; eins marks tap í fimmta leik, eftir að bæði höfðu unnið tvo. Vonbrigði Þórsara eru að sjálfsögðu gríðarleg að missa af þessu gullna tækifæri. Þeir höfðu forystu frá byrjun í kvöld og fram í seinni hálfleik en hætt er við að þreyta eftir erfitt einvígi við Hörð í undanúrslitunum hafi skipt miklu máli. Á meðan það fór fram hlóðu Fjölnismenn batteríin fyrir úrslitaeinvígið.
Kristján Páll Steinsson varði tvö víti í leiknum, hér það fyrra frá Björgvini Páli Rúnarssyni. Mynd: Skapti Hallgrímsson
Þessi fimm leikja rimma Þórs og Fjölnis var frábær skemmtun en endirinn sorglegur. Hart var tekist á innan vallar og stemningin á áhorfendapöllunum verður lengi í minnum höfð; frammistaða fylgjenda beggja liða var til fyrirmyndar enda gleðin við völd.
Kraftur í Þórsurum
Þetta var þriðja árið í röð sem Fjölnir lék í úrslitum umspilsins og náði loks langþráðu markmiði. Tvö síðustu ár töpuðu Fjölnismenn mjög naumlega og áttu því auðvelt með að skilja líðan Þórsara í gærkvöldi, mitt í fagnaðarlátunum.
Þórsarar voru mun betri framan og höfðu forystu allan fyrri hálfleik nema hvað Fjölnismenn náðu að jafna 5:5. Síðan stakk Þórsliðið af á ný og var þremur mörkum yfir í leikléi, 14:11.
Aron Hólm Kristjánsson skorar eftir hraðaupphlaup, hann gerði átta mörk í leiknum. Mynd: Skapti Hallgrímsson
Þórsarar gerðu tvö fyrstu mörk seinni hálfleiks, staðan orðin 16:11 en þá fóru heimamenn í gang, gerðu sex mörk í röð og komust yfir, 17:16. Sóknarleikur Þórsliðsins var mjög góður lengi vel, vörnin firnasterk og Kristján Páll í ham í markinu. Þegar nokkuð var liðið af seinni hálfleik dró hins vegar af þeim, heimamenn nýttu sér það óspart. Þegar tæpar 10 mín. voru eftir munaði fjórum mörkum, 22:18, en Þórsarar neituðu að gefast upp. Þeir náðu að jafna, 22:22, þegar liðlega þrjár mín. voru eftir en Fjölnir gerði næstu tvö mörk og það var ekki fyrr en á síðustu sekúndunum að Aron Hólm Kristjánsson minnkaði muninn í eitt mark þegar hann skoraði úr víti.
Mörk Þórs: Aron Hólm Kristjánsson 8, Brynjar Hólm Grétarsson 6, Þormar Sigurðsson 5, Jón Ólafur Þorsteinsson, Arnór Þorri Þorsteinsson, Friðrik Svavarsson og Arnþór Gylfi Finnsson 1 hver.
Varin skot: Kristján Páll Steinsson 15 (2 víti)
Smellið hér til að sjá leikskýrsluna
Vonsvikinn en stoltur
Halldór Örn Tryggvason, þjálfari Þórs, var eðlilega afar vonsikinn að leikslokum. Hann kvaðst þó mjög stoltur af liði sínu en lýsti yfir óánægju með frammistöðu dómaranna í þessum síðasta leik úrslitarimmunnar. Það verður að segjast eins og er að nokkrar ákvarðanir dómaranna vöktu nokkra undrun og skiptu miklu máli í svo jöfnum leik. Ekki þýðir þó að kenna því eingöngu um hvernig fór.
Smellið hér til að sjá viðtal handboltavefs Íslands, handbolti.is, við Halldór Örn.