Fara í efni
Handknattleikur

Bein leið í blakinu en brekka í handboltanum

Gamli KA-maðurinn Ásbjörn Friðriksson í dauðafæri í Kaplakrika í gærkvöldi. KA-mennirnir eru Logi Gautason, til vinstri, og Einar Birgir Stefánsson. Mynd af handbolti.is/J. Long

Karlalið KA í blaki tryggði sér í gærkvöldi sæti í undanúrslitum Íslandsmótsins með 3:1 sigri á Þrótti úr Fjarðarbyggð í KA-heimilinu. KA vann fyrstu hrinuna 25:17, gestirnir þá næstu 25:19 en KA síðan tvær í röð, 25:23 og 25:18. KA hafði áður unnið Þróttara fyrir austan og tvo sigra þurfti til að komast áfram.

Karlalið KA í handbolta gerði aftur á móti ekki góða ferð til Hafnarfjarðar þar sem það mætti nýbökuðum deildarmeisturum FH í lokaumferð deildarkeppninnar. KA-menn voru að vísu einu marki yfir í hálfleik, 14:13, en heimamenn buðu upp á flugeldasýningu í seinni hálfleik, léku við hvern sinn fingur og slógu um leið öll vopn úr höndum gestanna.

FH gerði 19 mörk í seinni hálfleik en KA aðeins átta svo munurinn var 10 mörk í lokin, 32:22, og mikil gleði braust út þegar FH-ingar hömpuðu deildarbikarnum í fyrsta skipti í sjö ár.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna

Stjarnan vann Víking í gærkvöldi og komst þar með upp fyrir KA; Stjarnan endar í sjöunda sæti en KA í því áttunda. Því er óhætt að segja að KA-manna bíði verðugt verkefni í fyrstu umferð átta liða úrslitakeppninnar, rimma við FH-inga.

Afturelding vann Val í gær með eins marks mun og hreppti þar með annað sætið.

Einvígin í átta liða úrslitunum verða þessi:

  • FH - KA
  • Afturelding - Stjarnan
  • Valur - Fram
  • ÍBV - Haukar

Úrslitakeppnin hefst með leikjum 10. apríl  en fyrsti leikur FH og KA verður degi síðar. Vinna þarf tvo leiki til þess að komast í undanúrslit.

Leikir KA og FH:

  • Fimmtudag 11. apríl - 18.00 í Kaplakrika
  • Sunnudag 14. apríl - 14.00 í KA-heimilinu
  • Miðvikudag 17. apríl - 19.45 í Kaplakrika, ef með þarf