Fara í efni
Handknattleikur

„Ákveðin eljusemi að klára þetta“

Daníel Andri Halldórsson, þjálfari Þórs, á hliðarlínunni í leiknum í dag. Mynd: Karfan.is.

Daníel Andri Halldórsson, þjálfari kvennaliðs Þórs í körfubolta, segir sigurinn á liði Keflavíkur og það að vinna titilinn meistarar meistaranna vonandi gefa liðinu kraft og hafi verið fín leið fyrir Þórsliðið til að sýna að það ætlar að enda ofar í töflunni í úrvalsdeildinni en spár fjölmiðla, þjálfara og fyrirliða segja til um. Daníel Andri var að vanda yfirvegaður þegar Akureyri.net heyrði í honum eftir leikinn, en hann var að stýra Þórsliðinu til fyrsta titils liðsins í 48 ár. 


„Þetta gefur liðinu ágætis kraft, vonandi. Þetta var fín leið fyrir okkur til að sýna að við ætlum ekkert að vera í 7. sæti í þessari deild. Við stefnum klárlega hærra en það,“ segir Daníel Andri Halldórsson, þjálfari Þórs. Mynd: Karfan.is - Gunnar Jónatansson.

Þórsliðið fór í þennan leik, meistarar meistaranna, án þess að hafa unnið titil því Keflvíkingar unnu þrefalt í fyrra. Það kom því í hlut Þórs sem silfurliðsins í bikarkeppni KKÍ, VÍS-bikarnum, að mæta ríkjandi meisturum. Daníel Andri orðaði það skemmtilega í viðtali við vefmiðilinn karfan.is þar sem hann sagði það fáránlega verðskuldað, án þess að hafa orðið meistarar, að verða meistarar meistaranna.

„Að megninu til forljótur körfubolti“

Akureyri.net heyrði í Daníel skömmu eftir leik í dag. „Við vissum að það vantaði í hópinn hjá Keflavík og vissum að við værum með hæðarmismun inni megnið af leiknum og nýttum það bara rosalega vel, þó þetta hafi að megninu til verið forljótur körfubolti hjá báðum liðum. Það var mikill haustbragur yfir þessu og bæði lið eiga klárlega miklu meira inni þegar líður á tímabilið. En það er ákveðin eljusemi að klára þetta í svona scrappy leik, mikið um klúðruð sniðskot og mikið af töpuðum boltum og klaufamistökum. Þá er betra að vera liðið sem klárar svona leik,“ sagði Daníel.


Eljusemi Þórskvenna átti þátt í sigrinum að mati þjálfarans. Þessi mynd er ef til vill dæmigerð fyrir eljusemina, þar sem samherjarnir Hrefna Ottósdóttir og Maddie Sutton taka báðar sama frákastið. Mynd: Karfan.is - Gunnar Jónatansson.

Daníel Andri segir titilinn skipta máli, það sé gott fyrir sjálfstraustið að vinna og góð byrjun fyrir Þórsliðið áður en kemur að fyrstu deildarleikjum. Það er einmitt stutt í fyrsta deildarleik og Þórsliðinu gefst lítill tími til að fagna því nú tekur við akstur heim og svo akstur suður aftur á þriðjudag þegar liðið mætir Val á Hlíðarenda í fyrstu umferðinni. 

„Þetta gefur liðinu ágætis kraft, vonandi. Þetta var fín leið fyrir okkur til að sýna að við ætlum ekkert að vera í 7. sæti í þessari deild. Við stefnum klárlega hærra en það,“ sagði Daníel einnig og vísar þar til þess að bæði fjölmiðlafólk annars vegar og þjálfarar og fyrirliðar liðanna í úrvalsdeildinni, Bónusdeildinni, spáðu Þórsliðinu 7. sætinu, en það kom frá á kynningarfundi Bónusdeildanna sem haldinn var í gær. Þar var nokkuð afgerandi munur á liðinu í 6. sæti og svo Þór í 7. sætinu og Tindastóli, Hamri/Þór og Aþenu sem eru í sætunum fyrir neðan Þór samkvæmt spádómum.