Fara í efni
Handknattleikur

Afar mikilvægur sigur KA – sá fyrsti á útivelli

Patrekur Stefánsson, sem hér er í kröppum dansi gegn Stjörnunni fyrr í vetur, gerði níu mörk fyrir KA í gær - mest allra. Mynd: Skapti Hallgrímsson

KA vann ÍR 39:34 á útivelli í gær í Olísdeild karla í handbolta. Sigurinn var gríðarlega mikilvægur og sannarlega kærkominn; þetta var í fyrsta sinn sem KA-menn fagna sigri á útivelli í vetur.

Fyrir leikinn var KA með 10 stig og ÍR með 8 stig í fallsæti. Fjölnir er neðstur með 6 og Grótta er með 10 stig en á leik til góða á hin liðin þrjú. KA-strákarnir höfðu sogast niður í fallbaráttu en eftir gærdaginn eru þeir aðeins tveimur stigum á eftir HK sem er nú í hinu eftirsótta áttunda sæti, því síðasta veitir rétt til þátttöku í úrslitakeppninni.

ÍR komst í 4:1 og var einu til þremur mörkum yfir fyrstu 20 mínúturnar en þá náði KA að jafna, 13:13, og jafnt var á öllum tölum þangað til KA -menn komust yfir í fyrsta skipti, 18:17. Staðan í hálfleik var 19:18 þeim í hag.

Jafnfræði var enn með liðunum fyrstu 10 mínútur seinni hálfleiks en þá skildu leiðir; KA gerði sjö mörk í röð á jafn mörgum mínútum og úrslitin þá í reynd ráðin.

Enn vantaði Bjarna Ófeig Valdimarsson, stórskyttu og varnarjaxl, í lið KA. Hann hefur glímt við meiðsli, var ekki með í fyrsta leiknum eftir jóla- og HM-frí, þegar Valsmenn komu í heimsókn á dögunum, en vonast er til þess að hann geti mætt til leiks fljótlega.

Sex umferðir eru eftir af deildarkeppninni:

  • KA - Fram
  • HK - KA
  • KA - ÍBV
  • Stjarnan - KA
  • KA - FH
  • Fjölnir - KA

Mörk KA í gær: Patrekur Stefánsson 9, Einar Rafn Eiðsson 7 (2 víti), Dagur Árni Heimisson 6, Einar Birgir Stefánsson 6, Ott Varik 5, Logi Gautason 2, Arnór Ísak Haddsson 2, Daði Jónsson 1, Jens Bragi Bergþórsson 1.

Varin skot: Nicolai Hornvedt kristensen 14 (29,2%)

Öll tölfræðin

Staðan