Fara í efni
Halli kokkur

Vinveittar yfirtökur á eldhúsum Akureyrar

Myndir af Facebook síðu Nielsen restaurant á Egilsstöðum

Dagana 16. og 17. febrúar, næstkomandi föstudag og laugardag, mun Kári Þorsteinsson yfirkokkur og eigandi veitingahússins Nielsen á Egilsstöðum taka yfir eldhúsið á North by Dill á Akureyri og konudagshelgina, 23. og 24. febrúar, verður veitingastaðurinn LYST yfirtekinn af Sigurði Laufdal yfirmatreiðslumanni og eiganda veitingastaðarins OTO, sem er staðsettur í hjarta Reykjavíkur.

Á North by Dill um næstu helgi verða á boðstólnum vinsælustu réttir Nielsen þar sem áherslan verður lögð á íslenskt og austfirskt hráefni. North by Dill sér um að para vín við þessa spennandi veislu sem enginn sælkeri ætti að láta fram hjá sér fara.

Þess ber að geta að Rafn Svansson, yfirmatreiðslumaður North by Dill og Kári unnu einmitt saman á Michelinstjörnustaðnum Dill í Reykjavík fyrir nokkrum árum. Þar ræður einmitt ríkjum Norðlendingurinn Gunnar Karl Gíslason við afar góðan orðstír.

Undir styrkri stjórn Kára og Sólveigar konu hans, hefur Nielsen blómstrað á Héraði og er margrómaður fyrir mikil gæði og orðinn með allra vinsælustu veitingastöðum á svæðinu.

Vefur North by Dill

Vefur Nielsen

North by Dill á Facebook

Nielsen á Facebook

North by Dill er á jarðhæð Hótels Akureyrar í gamla Skjaldborgarhúsinu við Hafnarstræti.

Spennt fyrir samstarfinu“

Konudagshelgina, 23. og 24. febrúar, verður veitingastaðurinn LYST yfirtekinn af Sigurði Laufdal yfirmatreiðslumanni og eiganda veitingastaðarins OTO, sem fyrr segir.

Reynir Grétarsson, eigandi og yfirmatreiðslumaður LYST, og Sigurður munu leiða saman hesta sína þar sem innblásturinn verður af ítalskri og japanskri matargerð OTO. LYST mun svo koma sterklega að vínpöruninni, enda búinnn að skapa sér stóran sess í hjarta vínáhugafólks með spennandi vínseðli sínum.

Sigurður á OTO hefur komið víða við á sínum ferli og hefur tvívegis hampað titlinum Kokkur ársins, keppt tvívegis fyrir Íslands hönd í einni virtustu matreiðslukeppni heims, Bocuse d´Or í Frakklandi og unnið á Michelinstöðum í Danmörku og Finnlandi. Frá opnun OTO hefur staðurinn skapað sér sess sem einn af vinsælustu veitingastöðum höfuðborgarsvæðisins.

Ljóst er að sælkerar á Norðurlandi mega búast við spennandi febrúarmánuði þar sem vinveittar yfirtökur „aðkomufólks“ munu krydda tilveruna, – braglaukana og sýna okkur nýjar hliðar á nú þegar afar góðum veitingastöðum á Akureyri.

Vefur LYST

Vefur OTO

LYST á Facebook

OTO á Facebook

Sigurður segist aðspurður ekki hafa unnið með Reyni áður. „Hann er búinn að halda viðburði á LYST sem hafa vakið eftirtekt og verið talað vel um hjá kollegum mínum, þannig þegar að kallið kom að þá þurfti ég ekki að hugsa mig um,“ segir hann við Akureyri.net. „Það er alltaf gaman að gera eitthvað nýtt og áhugavert þannig að við hjá OTO erum mjög spennt fyrir samstarfinu.

Beðinn um að útskýra nafnið á veitingastað sínum í Reykjavík, OTO, svarar Sigurður: „Nafnið OTO er tekið úr Kyoto, en staðurinn er undir áhrifum frá Japan og Ítalíu. Nafnið kom einhvern veginn strax og það voru engar vangaveltur um nafnið, Stutt, hnitmiðað og sker sig úr.“

Ætlarðu að koma með skíðin?

„Skíðin þurfa víst að vera eitthvað aðeins lengur í geymslunni. En ég er spenntur fyrir kvöldverði á North by dill, fyrir Skógarböðunum og að kíkja á Einar Geirs á RUB,“ segir Sigurður sem byrjaði að læra hjá Einari í Reykjavík fyrir 20 árum.

LYST er í afar fallegu húsi í Lystigarðinum.