Fara í efni
Grunnskólar

Tvenn verðlaun Heimilis og skóla til Akureyrar

Frá vinstri: Jóhann Gunnarsson, nýkjörinn formaður Heimilis og skóla, Leopold Juiaan v. Broers, dugnaðarforkur ársins ásamt konu sinni An Karien Patricia M Lecluyse – þau hjón eru foreldrar barna á leikskólanum Iðavelli, Anna Lilja Sævarsdóttir skólastjóri Iðavallar og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra. Myndir: MOTIV.

Brekkuskóli á Akureyri og Öldutúnsskóli í Hafnarfirði hljóta Foreldraverðlaun Heimilis og skóla í ár og hjón á Akureyri voru útnefnd dugnaðarforkar Heimilis og skóla.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Heimili og skóla í dag en Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, afhenti verðlaunin að þessu sinni, við hátíðlega athöfn í Safnahúsinu við Hverfisgötu í Reykjavík í gær.

Í tilkynningunni segir:

  • „Brekkuskóli á Akureyri og Öldutúnsskóli í Hafnarfirði hlutu verðlaunin að þessu sinni. Verkefnin stuðla að góðri og náinni samvinnu milli heimila og skóla, eru í takti við Farsældarsáttmála Heimilis og skóla ásamt því að ríma námkvæmlega við það sem Heimili og skóli standa fyrir. Verkefnin eiga það sameiginlegt að bjóða foreldrum til samstarfs.“ 
  • „Einnig var dugnaðarforkur Heimilis og skóla valinn. Þau verðlaun fóru til hjónanna An Katrien Patricia M. Lecluyse og Leopold Juliaan V. Broers. Hjónin hafa staðið sig frábærlega í því að efla foreldratengsl á leikskóla barna sinna og vinna mikilvægt starf í því að hafa samstarf heimilis og skóla sem allra best. Þau hafa rétt út hjálparhönd til erlendra foreldra á leikskólanum og eru alltaf boðin og búin til þess að aðstoða, veita upplýsingar og stuðning ásamt því að byggja tengsl við bæði börn og foreldra.“

Frá vinstri: Þorvar Hafsteinsson fráfarandi formaður og Jóhann Gunnarsson nýkjörinn formaður Heimilis og skóla, Sigríður Magnúsdóttir deildarstjóri yngra stigs í Brekkuskóla á Akureyri, fjórir fulltrúar Öldutúnsskóla í Hafnarfirði – frá vinstri, Þóra Jónsdóttir, Margrét Sverrisdóttir, Guðrún Helga Kristjánsdóttir og Helga Kristín Halldórsdóttir – og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Heimili og skóli eru landssamtök foreldra. Þau veita ráðgjöf og stuðning til foreldra og foreldrasamtaka um allt land, ásamt því að gefa út fjölbreytt fræðsluefni til stuðnings við foreldra. Samtökin reka fræðsluskrifstofu í Reykjavík. 

Tekið var við tilnefningum frá almenningi en sérstök dómnefnd fór yfir allar tilnefningar líkt og venjan er og valdi verðlaunahafa. 

Þetta er í 29. skipti sem foreldraverðlaun Heimilis og skóla eru afhent og í fyrsta sinn sem tvö verkefni hljóta verðlaunin; ekki þótt hægt að gera upp á milli þeirra tveggja að þessu sinni.

  • „Heimili og skóli óska vinningshöfum og þeim sem tilnefnd voru hjartanlega til hamingju og þakka kærlega fyrir þeirra starf í þágu skólasamfélagsins,“ segir í tilkynningu samtakanna.
  • „Mikilvægt er að vekja athygli á því sem vel er gert í skólasamfélaginu en markmið Foreldraverðlauna Heimilis og skóla er að vekja athygli á því gróskumikla starfi sem fram fer innan leik-, grunn- og framhaldsskóla á Íslandi og þeim mörgu verkefnum sem stuðla að öflugu og jákvæðu samstarfi heimila, skóla og samfélagsins. Foreldraverðlaunin minna á hverju samtakamátturinn fær áorkað.“

Verðlaunahafar og þau sem tilnefndir voru, ásamt Ásmundi Einari Daðasyni, mennta- og barnamálaráðherra, sem er lengst til vinstri.