Snjóki sigurvegari í upplestrarkeppninni
Snjóki M. Gunnarsson úr Oddeyrarskóla sigraði í Upphátt, upplestrarkeppni grunnskólanna á Akureyri.
Þetta er í fyrsta sinn sem hátíðin er haldin undir þessu heiti en undanfarin 21 ár hefur hún kallast Stóra upplestrarkeppnin. Nemendur úr 7. bekk grunnskóla bæjarins tóku þátt í keppninni, sem fór fram í Kvosinni í Menntaskólanum á Akureyri í gær.
„Upplestrarkeppni grunnskólanna hefur skipað stóran sess hjá 7. bekkingum og er mikil vinna sem liggur að baki henni. Upphafsdagur hátíðarinnar er á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember ár hvert, og skiptist hún í tvo hluta; ræktunarhluta og keppnishluta. Í fyrri hlutanum er mikil áhersla lögð á að nemendur æfi upplestur, vandaðan framburð, túlkun og framkomu. Þessum hluta lýkur með forkeppni þar sem hver skóli velur sína tvo fulltrúa auk varamanns til að taka þátt í lokakeppninni fyrir hönd skólans,“ segir á vef Akureyrarbæjar.
Það voru því 15 hæfileikaríkir nemendur sem lásu part úr sögunni Ógn, ráðgátunni um Dísar-Svan eftir Hrund Hlöðversdóttur og ljóð eftir Sigmund Erni Rúnarsson. Dómnefnd skipuðu Vilhjálmur Bergmann Bragason, Hólmkell Hreinsson og Gunnhildur Ottósdóttir.
- Snjóki M. Gunnarsson, Oddeyrarskóla, 1. sæti
- Guðmundur Jóvin Sigvaldason, Brekkuskóla, 2. sæti
- Lilja Maren Jónsdóttir, Naustaskóla, 3. sæti