Fara í efni
Grunnskólar

Símafrí í grunnskólum í byrjun næsta skólaárs

Mynd af vef Stjórnarráðsins

Nýjar símareglur, Símasáttmálinn, liggja fyrir af hálfu fræðslu- og lýðheilsusviðs Akureyrar. Símasáttmálinn tekur gildi í upphafi næsta skólaárs, í ágúst, að því er fram kemur í bréfi Kristínar Jóhannesdóttur sviðsstjóra í bréfi til starfsfólks og foreldra grunnskólabarna.

Bréfið til starfsfólks grunnskólanna og foreldra grunnskólabarna ber yfirskriftina Símafrí í grunnskólum Akureyrarbæjar. Símar eða önnur snjalltæki verða ekki leyfð á skólatíma, hvorki í skólanum eða á skólalóð. Leiðin milli skóla og íþróttamannvirkja telst til skólalóðar, að því er fram kemur í bréfinu. 

Símafrí þýðir að símar eða önnur snjalltæki eru ekki leyfð á skólatíma, hvorki í skólanum eða á skólalóð. Leiðin milli skóla og íþróttamannvirkja telst til skólalóðar. Undantekningar eru þó frá þessu, til dæmis að nemendum á unglingastigi verður heimilt að nota síma í frímínútum á föstudögum, á skilgreindum svæðum sem hver skóli fyrir sig ákveður.

Bæjarfulltrúarnir Gunnar Már Gunnarsson og Heimir Örn Árnason, formaður fræðslu- og lýðheilsuráðs, birtu í gærkvöld grein á Akureyri.net þar sem þeir fara í stuttu máli yfir aðdraganda og vinnuferlið við undirbúning símafrísins - sjá hér.

Bréf Kristínar til starfsfólks og foreldra er svohljóðandi: 

Símafrí í grunnskólum Akureyrarbæjar

Bréf til starfsfólks og foreldra grunnskólabarna vegna breyttra símareglna í grunnskólum Akureyrarbæjar

Talsverðar áskoranir hafa að undanförnu tengst símanotkun nemenda í grunnskólum bæjarins og mikil vitundarvakning hefur orðið hvað notkun snjalltækja varðar. Ákveðið var að efna til víðtæks samráðs varðandi hugmyndir um samræmdar símareglur í grunnskólum Akureyrarbæjar. Starfshópur starfaði á tímabilinu nóvember 2023 til mars 2024. Hann var samsettur af kjörnum fulltrúum, fulltrúum foreldra og ungmenna, starfsfólki skóla og starfsfólki af fræðslu- og lýðheilsusviði. Hópurinn vann að því að skoða kosti og galla samræmdra símareglna og símafrís í grunnskólum. Hópurinn átti samráð við foreldra, starfsfólk skóla og nemendur með fjölbreyttum hætti auk þess að afla upplýsinga um reynslu annarra skóla og sveitarfélaga sem hafa verið á svipaðri vegferð. Þá kynnti hópurinn sér skýrslu UNESCO varðandi þessi mál og hvað hin Norðurlöndin eru að gera.

Samhliða þessari vinnu hafa allir nemendur á mið- og unglingastigi grunnskólanna á Akureyri fengið fræðslu frá Skúla Braga Geirdal verkefnastjóra miðlalæsis hjá Fjölmiðlanefnd, en tilgangur fræðslunnar var að skapa aukinn skilning meðal nemenda um netöryggismál og áhrif símanotkunar. Skúli Bragi hefur einnig verið starfshópnum innan handar og veitt góð ráð.

Hópurinn hefur nú lagt fram nýjar símareglur sem taka gildi næsta skólaárs, í ágúst 2024. Tilgangurinn með sáttmálanum er fyrst og fremst að skapa góðan vinnufrið í skólum, stuðla að bættri einbeitingu, auknum félagslegum samskiptum og vellíðan nemenda og starfsfólks skóla. Sáttmálinn verður birtur á veggspjaldi og honum fylgja nánari upplýsingar fyrir starfsfólk skóla.

Símasáttmálinn felur í meginatriðum í sér eftirfarandi atriði;

  • Símafrí í grunnskólum Akureyrarbæjar tekur gildi í ágúst 2024.
  • Símafrí þýðir að símar eða önnur snjalltæki eru ekki leyfð á skólatíma, hvorki í skólanum eða á skólalóð. Leiðin milli skóla og íþróttamannvirkja telst til skólalóðar.
  • Allir nemendur eru hvattir til að skilja símana eftir heima.
    • Ef nemendur koma með síma í skólann
      • eiga nemendur ekki að hafa símann á sér, en nemendur í 8. - 10. bekk geta geymt símana í læstum skápum í skólanum og yngri nemendur eiga að geyma símana í skólatösku. Símar skulu ekki geymdir í fatnaði nemenda eða á borðum.
      • er síminn á ábyrgð nemenda og/eða forráðamanna.
      • eiga nemendur að hafa símann þannig stilltan að hann gefi ekki frá sér hljóð eða víbring (nota flugstillingu).
    • Á föstudögum er nemendum á unglingastigi heimilt að nota síma í frímínútum á skilgreindum svæðum sem ákvörðuð verða í hverjum skóla.
    • Símar og önnur snjalltæki eru ávallt á ábyrgð eigenda sinna.
    • Símasáttmálinn nær einnig til annarra snjalltækja, t.d. snjallúra, að því gefnu að þau trufli eða geti truflað kennslu og einbeitingu.
    • Sé reglum um símafrí ekki fylgt eftir fær nemandi áminningu/samtal við kennara og tækifæri til að setja símann á viðeigandi stað. Við endurtekið brot er nemanda boðið að velja á milli þess að
      • a. afhenda símann sem verður geymdur á skrifstofu skólastjórnanda til loka skóladags nemanda.
      • b. fara á skrifstofu skólastjórnanda og bíða þar uns foreldri hefur komið í skólann til að ljúka afgreiðslu málsins. Við ítrekuð brot á símafríi er boðað til fundar með nemanda og foreldrum og skráning gerð í Mentor.

Samhliða innleiðingu símasáttmála verður gengið út frá því að starfsfólk skólanna sýni fyrirmynd og noti ekki síma á svæðum nemenda nema með einstökum undantekningum og þá vegna starfsins.

Foreldrar/forráðamenn geta ávallt haft samband við nemendur með því að hringja í ritara skólans. Þá geta nemendur alltaf fengið að hringja í skólanum. Noti nemendur símtæki í heilsufarslegum tilgangi (t.d. v/ sykursýkismælinga) er undanþága veitt til að nota símann í þeim tilgangi.

Mikilvægt er að heimilin og skólasamfélagið allt standi saman að því að innleiða sáttmálann á jákvæðan og árangursríkan hátt og því vonumst við eftir jákvæðum viðbrögðum og góðri samvinnu allra.

Fyrir hönd starfshópsins,
Kristín Jóhannesdóttir
sviðsstjóri fræðslu- og lýðheilsusviðs Akureyrarbæjar