Fara í efni
Grunnskólar

Prjóna „Gegn einelti“-húfur á yngstu börnin

Ljósmyndir: Rakel Hinriksdóttir

8. nóvember er alþjóðlegur forvarnardagur gegn einelti og víða um land halda grunnskólar upp á daginn með ýmsum hætti. Í Oddeyrarskóla hefur skapast sú hefð að norskri fyrirmynd, að gefa hverjum nemanda í fyrsta bekk, og nýjum nemendum í öðrum bekk, sérprjónaða húfu. Í skólanum er starfandi sérstakt forvarnarteymi gegn einelti, og skólastjórinn Anna Bergrós Arnarsdóttir starfar í teyminu.

Öflugt prjónateymi starfsmanna og foreldra

„Starfsfólkið hefur prjónað húfurnar í gegnum tíðina,“ segir Anna Bergrós. „Á síðasta ári vorum við svolítið tæp að ná að klára, þannig að í ár leituðum við til foreldranna og það stóð ekki á því að nokkrir öflugir prjónarar buðu sig fram og allar húfurnar eru klárar, líka fyrir næsta ár!” Það er haldin svolítil athöfn þar sem krakkarnir í fyrsta bekk fá húfurnar sínar, en í ár eru 15 nemendur í fyrsta bekk. Einnig voru tveir nemendur í öðrum bekk og einn í þriðja bekk sem fá húfu í ár. „Starfsfólkið sem er með krökkunum úti í frímínútum hefur hjálpað okkur að velja liti á húfurnar sem tóna kannski við útifötin hjá krökkunum, þannig að við reynum að velja liti fyrir hvern og einn,“ segir Anna Bergrós.

Húfurnar að norskri fyrirmynd

Fulltrúar skólans fóru í ferð til Noregs fyrir um það bil tíu árum og kynntust húfunum þar. „Það var einhver búinn að teikna upp uppskrift fyrir íslensku stafina á húfurnar, en það stóð Mod Mobbing á norsku húfunum og við fórum strax að velta því fyrir okkur hvort við gætum ekki gert þetta heima. Verkefnið fór fljótlega í gang og hefur gefið góða raun. 

Svanbjörg Sverrisdóttir tónmenntakennari spilar og syngur með börnunum.

Mér finnst þetta ekki meira eða grófara en áður, ef ég hugsa svona tíu ár aftur í tímann. Ég hef áhyggjur af einelti í gegnum samfélagsmiðla í dag, við heyrum ekki mikið af því en það fer þá bara leynt.

Áhyggjur af einelti á samfélagsmiðlum

Allir grunnskólar á Akureyri eru með stefnu og viðbragðsáætlun í eineltismálum. „Við erum með forvarnaráætlun sem er endurskoðuð árlega,“ segir Anna Bergrós. „Það er hægt að tilkynna einelti eða grun um einelti á heimasíðu skólans eða beint til starfsfólks.“ Anna segir að það komi alltaf reglulega upp einhver mál, því miður. „Mér finnst þetta ekki meira eða grófara en áður, ef ég hugsa svona tíu ár aftur í tímann. Ég hef áhyggjur af einelti í gegnum samfélagsmiðla í dag, við heyrum ekki mikið af því en það fer þá bara leynt.“ Anna segir að það sem af er þessu ári hafi komið upp tvö mál sem tilkynnt var um. „Það hafa verið svona 3-5 mál á ári sem koma upp.“

Stopp - farðu úr aðstæðum - segðu frá

Oddeyrarskóli er SMT-skóli, og er krökkunum kennt að nota Stopp - farðu úr aðstæðum - segðu frá aðferðina, sem er þýðing á frasanum Stop - Walk - Talk. „Í stuttu máli er krökkunum kennt að segja stopp ef þau lenda í aðstæðum sem þeim líkar ekki, ganga í burtu og segja svo fullorðnum frá atvikinu,“ segir Anna Bergrós. Á Akureyri eru þrír SMT skólar, Oddeyrarskóli, Lundarskóli og Síðuskóli, en þeir byggja á hugmyndafræði þar sem þjálfuð er félagsfærni á markvissan hátt, hvatt er til æskilegrar hegðunar og viðbrögð starfsfólks við óæskilegri hegðun eru samræmd.