Fara í efni
Grunnskólar

Mælanleg aukin starfsánægja á HSN

Flutningur heilsugæslustöðvarinnar í nýtt húsnæði hefur skipt sköpum fyrir aðbúnað hluta starfsfólks HSN sem og skjólstæðinga, að sögn Jóns Helga Björnssonar forstjóra. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN), sem heilsugæslan á Akureyri er hluti af, hækkaði í öllum flokkum á milli ára í könnuninni Stofnun ársins 2024, þar sem fram koma mikilvægar upplýsingar um starfsumhverfi vinnustaða og samanburður við aðrar stofnanir. Í könnuni eru ýmsir þættir í starfseminni metnir, s.s. stjórnun, starfsandi, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleiki í vinnu, sjálfstæði í starfi, ímynd stofnunar, ánægja og stolt, og jafnrétti. Niðurstöðurnar voru birtar á dögunum og lýsir HSN mikilli ánægju með þær. 

Myndin sýnir heildareinkunn HSN síðastliðin sex ár og má sjá markverða breytingu á nýliðnu ári miðað við árin á undan. 

HSN er nú í 15.-18. sæti í flokki stórra stofnana, en var í 35.-36. sæti í sama flokki í fyrra. Stjórnun, ímynd, ánægja og stolt eru þeir þættir sem hækkuðu mest í niðurstöðum fyrir HSN. Um 35.000 manns svöruðu könnuninni. Stofnun ársins er samstarfsverkefni Sameykis, fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Reykjavíkurborgar og annarra opinberra stofnana og vinnustaða víða um land.

Unnið markvisst að umbótum

Frá þessu er sagt á vef HSN og þar er vitnað í stjórnendur stofnunarinnar, Hildi Ösp Gylfadóttur, framkvæmdastjóra mannauðs, og Jón Helga Björnsson, forstjóra HSN.

„Hjá HSN höfum við undanfarið unnið markvisst að umbótum í stjórnun og starfsumhverfi okkar. Við erum með metnaðarfulla stjórnendafræðslu og stuðning við stjórnendur. Við gerum reglulegar viðhorfskannanir á meðal starfsfólks og nýtum þær markvisst til úrbóta. Þá vann starfsfólk HSN að stefnumótun stofnunarinnar til næstu ára, sem færði mikilvæg og fjölbreytt sjónarmið og hugmyndir upp á borðið um hvernig við getum bætt þjónustu við íbúa, starfsaðstæður og starfsánægju,“ segir Hildur Ösp Gylfadóttir, framkvæmdastjóri mannauðs.

Aukinn sýnileiki

„Þá höfum við líka eflt sýnileika okkar og aukið við fjölda frétta af starfsfólkinu okkar og þeim mikilvægu verkefnum sem þau sinna á hinum ýmsu starfstöðvum HSN. Nýtt húsnæði heilsugæslu HSN á Akureyri hefur skipt sköpum fyrir aðbúnað hluta starfsfólks sem og skjólstæðinga. Við höfum verið að taka skref til innleiðingar á teymisvinnu og heilsueflandi vinnustaðar og við viljum taka fleiri örugg skref þar,“ segir Jón Helgi Björnsson, forstjóri HSN.

Hildur Ösp og Jón Helgi eru sammála um að HSN sé fyrst og fremst heppið með starfsfólk. Hvert sem í horn er litið er kraftmikið og jákvætt fólk sem vinnur af heilindum sem skilar okkur betri vinnustað. Fyrir það erum við mjög þakklát. Við erum hvergi nærri hætt og munum gera okkar allra besta til að þróa áfram starfið með okkar góða starfsfólki en öll berum við ábyrgð á að skapa og viðhalda góðri vinnustaðarmenningu og góðum starfsanda, segir einnig í frétt HSN.