Fara í efni
Grunnskólar

Enn rafmagnslaust í hluta Glerárskóla

Eyrún Skúladóttir skólastjóri við kertaljós á kennarastofu Glerárskóla í morgun. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Enn er rafmagnslaust í hluta Glerárskóla. Rafmagn komst í morgun á hluta skólans, en Eyrún Skúladóttir skólastjóri og tveir samstarfsmenn hennar sátu og sötruðu kaffi við kertaljós á kennarastofunni þegar Akureyri.net kom í heimsókn um tíuleytið.

„Vonandi kemst rafmagn á í dag, en það er svo sem ekki öruggt,“ sagði Eyrún. Starfsmenn Norðurorku unnu í skólanum til klukkan sjö í morgun og halda áfram síðar í dag. „Það var ekki ástæða til þess að starfsfólk mætti til vinnu í morgun því hér er ekkert hægt að gera í rafmagns- og netleysi,“ sagði Eyrún.

Ritari skólans vann langt fram á nótt við það að hringja í starfsmenn auk þess að senda skilaboð til foreldra allra barna í skólanum og það bar góðan árangur því aðeins mættu nemendur frá einu heimili í skólann í morgun.

„Það fór betur en á horfðist, en aðkoman var sannarlega ekki skemmtileg,“ sagði Eyrún í morgun. „Skemmdir í kjallaranum eru miklar og tvær útihurðir, ein niðri og önnur á jarðhæð, eru sennilega ónýtar. Kennsluálmurnar sluppu en reykur fór inn um allan skóla og þar er vinna framundan við að þrífa.“

Ljóst er að hefði eldurinn komist inn í skólann hefði farið mun verr.

Rafmagn fór af öllum hverfum norðan Glerár og hluta bæjarins sunnan ár. Víðast komst rafmagn á innan klukkustundar en ekki fyrr en klukkan sex í morgun við Háhlíð, næstu götu við skólann, hluta Höfðahlíðar og í Hamri, félagsheimili Þórs og íþróttahúsinu Boganum.

Strax í gærkvöldi lék grunur á að kviknað hefði í vegna flugelda og í nótt hafði ungmenni samband við lögreglu og viðurkenndi að hafa verið að fikta með flugelda og kveikt í. Um óviljaverk var þó að ræða. Eftirlitsmyndavélar eru við skólann þannig að auðvelt hefði verið að sjá hverjir voru þarna á ferðinni, að sögn húsvarðar Glerárskóla.

  • Á myndinni fylgjast Eyrún skólastjóri, til vinstri, Þorsteinn Gretar Gunnarsson, starfsmaður upplýsingavers skólans og Helga Halldórsdóttir, deildarstjóri og staðgengill skólastjóra, með aðgerðum í gærkvöldi.

Eldur í Glerárskóla, rafmagn af Þorpinu

Eldurinn vegna fikts með flugelda