Fara í efni
Grímsey

Tvær vindmyllur í Grímsey til prufu

Mynd frá Skotlandi, af samskonar vindmyllum og stendur til að reisa í Grímsey. Mynd úr umsókn Fallorku um framkvæmdaleyfi.

Tvær 6 kW vindmyllur verða settar upp í Grímsey í sumar. Skipulagsráð Akureyrar hefur veitt Fallorku, dótturfyrirtæki Norðurorku, tímabundið leyfi fyrir þessu tilraunaverkefni, til eins árs.

Grímsey, sem er nú hluti Akureyrarkaupstaðar eins og margir vita, er ekki tengd orkukerfum Íslands og hefur því öll orkuframleiðsla í eyjunni til þessa „verið með ósjálfbæru, óendurnýjanlegu jarðleifaeldsneyti með tilheyrandi neikvæðum umhverfis- og loftslagsáhrifum,“ eins og það er orðað í umsókninni frá Fallorku.

Möstrin eru 9 metrar á hæð, spaðarnir 5,6 m í þvermál og hæsti punktur frá jörðu því tæplega 12 m. Vindmyllurnar verða reistar miðsvæðis á austurhluta eyjarinnar, á stað sem í aðalskipulagi er skilgreindur sem athafnasvæði og fyrir eru fjarskiptamöstur og tæknibúnaður í eigu Mílu og Neyðarlínunnar. Ef vel gengur er gert ráð fyrir að setja upp samtals allt að sex vindmyllur en ef ákveðið verður að fara ekki lengra með verkefnið tekur einn dag að taka þær niður án sjánlegs rasks á landi, að sögn. Nú þegar eru vegslóðar upp að núverandi möstrum.

Vindmyllurnar eru mjög auðveldar í uppsetningu – til dæmis er tekið fram að ekki þurfi byggingarkrana á staðinn – og einnig að auðvelt er að taka þær niður og fjarlægja ef þörf er á. „Steyptar verða undirstöður undir myllurnar á staðnum og verða möstrin svo boltuð á undirstöðurnar. Allur búnaður sem tengist þessum tveimur vindmyllum kemst fyrir í einum 40 feta gámi.“

Tekið er fram að um afturkræfa framkvæmd sé að ræða, „og ef reynslan af vindmyllunum verður ekki eins góð og vonir standa til eða ef umhverfisáhrif teljast neikvæð verða myllurnar fjarlægðar að loknu þessu eins árs tilraunaverkefni og svæðinu komið í sama horf og það er fyrir.“

Myndir og myndskeið segja meira en mörg orð – smellið hér til að sjá hvernig þetta er gert.