Sauna- og infrarauðir klefar í Hrísey
Glatt var á hjalla í íþróttamiðstöðinni í Hrísey í gær þegar haldið var upp á 60 ára afmæli sundlaugarinnar og að 16 ár eru frá vígslu íþróttamiðstöðvarinnar.
Jafnframt voru nýir sauna- og infrarauðir klefar formlega teknir í notkun ásamt nýrri útiklukku. Gestum og gangandi var boðið upp á léttar veitingar.
Greint er frá þessu á vef Hríseyjar.
Hrund Teitsdóttir ávarpaði samkomuna fyrir hönd Kvenfélags Hríseyjar og greindi frá því að á aðalfundi í febrúar hefði félagið samþykkt að gefa sundlauginni infra rauðan klefa.
Hún rifjaði upp hvernig konur í félaginu unnu ötullega að því að sundlaugarbyggingin varð að veruleika á sínum tíma, héldu meðal annars kökubasara og skemmtisamkomur til að afla fjár til byggingarinnar.
„Saga sundlaugarbyggingarinnar sýnir dugnað og samstöðu Hríseyinga. Enn í dag sjáum þess merki að fólk vinnur víða óeigingjarnt starf í þágu eyjarinnar,“ sagði Hrund. „Kvenfélagið ákvað á aðalfundi sínum í febrúar að minnast framtaks forvera sinna og fjárfesta í infra-rauðum klefa fyrir sundlaugina. Með því leggur kvenfélagið áfram sitt af mörkum til þess að bæta aðstöðu Hríseyinga til heilsueflingar og samveru,“ sagði hún.
Smellið hér til að lesa meira og sjá fleiri myndir