Fara í efni
Grímsey

Ríkið krefst drjúgs hluta Grímseyjar

Ljósmynd: Friðþjófur Helgason

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur sett fram kröfu þess efnis að hluti Grímseyjar teljist eign íslenska ríkisins. Eyjan hefur verið hluti Akureyrarkaupstaðar í hálfan annan áratug.

Formlega er krafan orðuð þannig að íslenska ríkið krefst þess að hluti Grímseyjar verði þjóðlenda. Vert er að geta þess að Hrísey, sem einnig er hluti Akureyrarkaupstaðar, er undanskilin þjóðlendukröfum.

Í tilkynningu frá óbyggðanefnd  segir að Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra, hafi fyr­ir hönd ís­lenska rík­is­ins af­hent óbyggðanefnd kröf­ur um þjóðlend­ur á svæði 12 sem nefn­ist „eyj­ar og sker“ og tek­ur til landsvæða inn­an land­helg­inn­ar en utan meg­in­lands­ins. Þar á meðal er hluti Grímseyja en einnig allt nýtt landsvæði sem myndaðist í Eyjagos­inu árið 1973, svo dæmi sé tekið, og aðrir hlutar eyjanna, til dæmis Heimaklettur.

Forsvarsmenn Akureyrarbæjar fréttu af kröfu ríkisins í gær en sveitarfélaginu hafði þá ekki borist formlegt erindi og því hefur enn ekki verið fjallað um málið þar á bæ.

Miðað við lýsingar í kröfu óbyggðanefndar er rauðmerkta svæðið um það bil sá hluti eyjarinnar sem ríkið vill að verði þjóðlenda.

HVAÐ ER ÞJÓÐLENDA?

  • Landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingar eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi.

Í lögum um þjóðlendur segir meðal annars:

  • Íslenska ríkið er eigandi lands og hvers konar landsréttinda og hlunninda í þjóðlendum sem ekki eru háð einkaeignarrétti.
  • Enginn má hafa afnot þjóðlendu fyrir sjálfan sig, þar með talið að reisa þar mannvirki, gera jarðrask, nýta hlunnindi, vatns- og jarðhitaréttindi, nema að fengnu leyfi og að uppfylltum skilyrðum laga að öðru leyti.

_ _ _

Í tilkynningu frá óbyggðanefndar segir um málsmeðferð hennar:

Meginhlutverk óbyggðanefndar er að rannsaka hvaða svæði eru utan eignarlanda en slík svæði eru að undangenginni rannsókn úrskurðuð þjóðlendur. Einnig úrskurðar nefndin um óbein eignarréttindi innan þjóðlendna.

Óbyggðanefnd hefur skipt landinu í sautján svæði og tekið eitt til meðferðar hverju sinni. Þar af eru sextán svæði á meginlandinu en það sautjánda tekur, sem fyrr segir, til eyja og skerja utan meginlandsins. Málsmeðferð á hverju svæði hefst á því að óbyggðanefnd tilkynnir fjármála- og efnahagsráðherra að nefndin hafi ákveðið að taka svæðið til meðferðar og veitir honum frest til að lýsa fyrir hönd íslenska ríkisins kröfum um þjóðlendur þar. Þegar kröfur ríkisins liggja fyrir kynnir óbyggðanefnd þær og skorar á þá sem telja til eignarréttinda eða annarra réttinda á svæði sem ríkið gerir kröfu til að lýsa kröfum sínum innan tiltekins frests. Að liðnum þeim fresti eru heildarkröfur kynntar.

Óbyggðanefnd rannsakar síðan málin, sem felur m.a. í sér umfangsmikla og kerfisbundna gagnaöflun í samvinnu við sérfræðinga á Þjóðskjalasafni Íslands. Leiði rannsókn nefndarinnar í ljós að einhver kunni að telja til eignarréttinda án þess að hafa lýst kröfu er viðkomandi gefinn kostur á að gerast aðili máls, sbr. 3. mgr. 13. gr. þjóðlendulaga.

Þegar framkomin gögn hafa verið rannsökuð til hlítar úrskurðar óbyggðanefnd um kröfur málsaðila. Ef svæði sem ríkið hefur gert þjóðlendukröfur til reynast samkvæmt rannsókn óbyggðanefndar vera eignarlönd er kröfum ríkisins þar hafnað. Svæði sem reynast utan eignarlanda eru hins vegar úrskurðuð þjóðlendur.

Nánari upplýsingar um málsmeðferð eru á vefsíðu óbyggðanefndar: