Fara í efni
Grímsey

Miðgarðakirkja: Von á smiði í næstu viku

Byggðin í Grímsey. Myndin er tekin á meðan gamla Miðgarðakirkja stóð enn og má sjá hana fjærst á myndinni. Ljósmynd: Friðþjófur Helgason.

Smíði nýrrar Miðgarðakirkju í Grímsey hefur ekki gengið snurðulaust fyrir sig eins og áður hefur verið sagt frá í fréttum. Kostnaður við bygginguna fór fram úr áætlunum og eitt og annað sem gerðar hafa verið athugasemdir við í þeirri vinnu sem þó er lokið.

Nú virðist eitthvað bjartara yfir verkefninu þó ákveðin verkefni og vandamál sem mikilvægt er að klára fyrir veturinn séu enn óleyst, þar á meðal að klára þak kirkjunnar, en von er á smiði í vinnu í næstu viku.

Á meðal þess sem gert er ráð fyrir í byggingunni eru almenningssalerni sem nýtast munu ferðamönnum sem þangað koma. Því fékkst 12 milljóna króna styrkur þar sem með þessu er verið að bæta aðstöðu ferðamanna. Helmingur þess framlags hefur verið greiddur og helmingur fæst þegar þessum hluta verkefnisins er lokið.

Fokheld eða ekki?

Grímseyingar komu saman í kirkjubyggingunni 22. september 2022 og fögnuðu því að hún væri orðin „fokheld“ að því er greint var frá í frétt á Akureyri.net þá og í frétt á vef Akureyrarbæjar tveim vikum fyrr, en spurning hvort það sé rétta orðið. Þak kirkjunnar er óklárað og ákveðin vandamál óleyst í þeim efnum þar sem virðist hafa verið farið rangt að við lagningu þakflísa. Það er því spurning hvort rétt sé að nota hugtakið „fokheld“ eða ekki, en þó ljóst að mikilvægt er að klára þakið fyrir veturinn.


Séra Oddur Bjarni Þorkelsson sóknarprestur Miðgarðakirkju ávarpar samkomugesti í kirkjunni í gær. Ljósmynd: María Helena Tryggvadóttir

Söfnun upp í byggingarkostnaðinn hefur verið í gangi frá því að gamla kirkjan brann og hafa framlög borist úr mögrum áttum og frá ótrúlegasta fólki. Grímseyingar eiga greinilega marga að og margt fólk sem hugsar vel til þeirra. Skemmtiferðaskip hafa reglulega viðkomu í Grímsey og hafa farþegar úr skipunum einnig lagt heimafólki lið, í raun ótrúlegt hve miklu söfnunarbaukar við kirkjubygginguna hafa skilað.

Fróðleik um sögu Miðgarðakirkju og kirkjubygginguna má meðal annars finna á síðu Grímseyjarkirkju á vef Akureyrarbæjar, akureyri.is.

Söfnunarreikningur Miðgarðakirkju
Kennitala: 460269-2539
Reikningsnúmer: 565-04-250731
IBAN: IS76 0565 0425 0731 4602 6925 39
SWIFT: GLITISRE