Fara í efni
Grímsey

Kveðjur frá forseta og forsætisráðherra

Ljósmynd: Karen Nótt Halldórsdóttir.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðhera, sendu bæði Grímseyingum kveðju í dag, í kjölfar þess að Miðgarðakirkja brann til grunna í gærkvöldi.

„Ég hef sent Grímseyingum, búsettum á eynni og brottfluttum, samúðarkveðju vegna bruna Miðgarðakirkju í nótt. Skaðinn er mikill, en þakkarvert að manntjón hafi ekki orðið. Í kveðju til Karenar Nóttar Halldórsdóttur, formanns hverfisráðs Grímseyjar, nefndi ég að fallegir munir hafi glatast að eilífu en byggingar sé hægt að endurreisa ef vilji er fyrir hendi. Þá minnti ég á að um þessar mundir munu vera um níu aldir frá því að Jón biskup Ögmundsson vígði kirkju í Grímsey,“ sagði forsetinn á Facebook síðu embættisins.

„Þrautseigju hefur ætíð verið þörf á þessari nyrstu byggð landsins, brothættri byggð eins staðan er um þessar mundir. Ég ítreka góðar óskir til Grímseyinga og vonast til að geta sótt þá heim við hentugleika,“ skrifaði forsetinn.

Ríkur vilji til stuðnings

„Mikið óskaplega er sárt að heyra af bruna Miðgarðakirkju í Grímsey í nótt. Þetta er mikið áfall fyrir samfélagið allt í Grímsey og ljóst að þarna hafa margar merkar menningaminjar eyðilagst sem er óbætanlegt tjón,“ skrifaði forsætisráðherra á Facebook. „Hugur minn er hjá íbúum og öllum þeim sem unnu þessari merku kirkju. Stjórnvöld munu ræða við heimamenn og ég er viss um að það verður ríkur vilji allra til að styðja við bakið á þeim í kjölfarið.“