Fara í efni
Grímsey

Kirkja rís í Grímsey – enn vantar 30 milljónir

Ljósmynd/Hilmar Páll Jóhannesson, af vef Akureyrarbæjar.

Ötullega hefur verið unnið að byggingu nýrrar Miðgarðakirkju í Grímsey í sumar, í stað þeirrar sem brann í september á síðasta ári. Vonir standa til að hægt verði að vígja kirkjuna sumarið 2023.

Skóflustunga var tekin í byrjun maí og Hilmar Páll Jóhannesson frá Loftkastalanum sem sér um smíðina segir á vef Akureyrarbæjar að verkið gangi vel þótt slæmt veður í lok júlí hafi tafið framkvæmdir. Starfsmenn á vegum Loftkastalans mættu aftur út í Grímsey um miðjan ágúst og stefna að því að loka kirkjunni fyrir lok september, gera hana fokhelda fyrir veturinn.

„Söfnun fyrir byggingu kirkjunnar gengur mjög vel. Áætlaður heildarkostnaður við fullfrágengna kirkju er um 120 milljónir króna. Í vor þegar fyrsta skóflustungan var tekin vantaði um 50 milljónir upp í kostnaðaráætlun og var þá sett af stað söfnunarátak sem hægt er að fylgjast með á heimasíðu Grímseyjar,“ segir á vef sveitarfélagsins. Smellið hér til að fara á umrædda heimasíðu.

Ennþá vantar tæplega 30 milljónir svo hægt sé að ljúka við kirkjusmíðina. Vonir standa til að sú fjárhæð safnist í vetur og hægt verði að vígja nýja Miðgarðakirkju sumarið 2023, segir á vefnum, en hún mun einnig þjóna hlutverki tónlistar- og menningarhúss.

  • Söfnunarreikningur Miðgarðakirkju: Kennitala: 460269-2539 Reikningsnúmer: 565-04-250731

Smellið hér til að sjá fleiri myndir frá kirkjubyggingunni í Grímsey.