Gleði í Grímsey þegar Sæfari sigldi á ný
Ferjan Sæfari kom til Grímseyjar í hádeginu í dag eftir tæplega þriggja mánaða fjarveru. Skipið var fullhlaðið varningi og um 50 farþegar voru um borð.
Skipið hefur verið í viðhaldi á Akureyri síðan um miðjan mars. Til stóð að það yrði í sex til átta vikur í slipp en þær áætlanir stóðust ekki og var ferjan ekki í notkun í samtals 12 vikur.
Gleðin var því mikil í Grímsey þegar ljóst var að ferjan gat siglt í morgun og voru margir mættir niður að höfn til að taka á móti skipinu þegar það lagði að bryggju, að því er segir á vef Akureyrarbæjar.
„Mjög vinsælt er að koma til Grímseyjar, sérstaklega á vorin og sumrin þegar eyjan iðar af lífi þegar farfuglar streyma til varpstöðvanna. Fjarvera ferjunnar var því umtalsvert högg fyrir ferðaþjónustuna í eyjunni þar sem mikið var um afbókanir. Vona heimamenn að nú færist allt í eðlilegt horf á ný enda bjartasti tími sumarsins fram undan og hvergi betra að upplifa sumarsólstöður en einmitt þar við heimskautsbauginn,“ segir á vef sveitarfélagsins.
Sæfari siglir milli Dalvíkur og Grímseyjar fimm daga vikunnar yfir sumartímann – á mánudögum, miðvikudögum, fimmtudögum, föstudögum og sunnudögum – og tekur siglingin um þrjá klukkutíma hvora leið.
Fleiri myndir á vef Akureyrarbæjar: Sæfara fagnað