Bjarni Magnússon fv. hreppstjóri látinn
Bjarni Magnússon, fyrrverandi hreppstjóri í Grímsey, lést sunnudaginn 29. ágúst, 91 árs að aldri. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Bjarni fæddist í Syðri-Grenivík í Grímsey 30. júní 1930 og ólst þar upp. Foreldrar hans voru Magnús Stefán Símonarson, hreppstjóri í Sigtúni í Grímsey, og Siggerður Bjarnadóttir húsfreyja.
Morgunblaðið segir:
Bjarni var við vélstjóranám á Akureyri 1948-1949. Hann var vélgæslumaður fyrir Rafmagnsveitur ríkisins, vatnsveitustjóri, vitavörður og slökkviliðsstjóri í Grímsey. Bjarni sat í hreppsnefnd í Grímsey frá 1962-1970. Hann tók við starfi hreppstjóra árið 1969 og gegndi starfinu í nákvæmlega 40 ár, tvo mánuði og tvo daga eins og hann orðaði það sjálfur í samtali við Morgunblaðið í tilefni áttræðisafmælisins árið 2010. „Þó er ég náttúrlega alltaf kallaður hreppstjóri ennþá,“ sagði Bjarni við það tilefni og hló við.
Bjarni sá um kosningar í Grímsey í um fimmtíu ár. Hann var einn af stofnendum Kiwanisklúbbsins í Grímsey og var forseti hans. Bjarni stundaði það um áratugaskeið að síga í björg eftir eggjum og veiða lunda. „Ég byrjaði á bjargi þegar ég var þrettán ára, 1943. Þá var ég að teyma hest fyrir pabba,“ sagði Bjarni í viðtali við Morgunblaðið árið 2008.
Bjarni var kvæntur Vilborgu Sigurðardóttur, ljósmóður, símstöðvarstjóra og veðurathugunarmanni. Hún fæddist 1. maí 1929 en lést 2. febrúar 2009. Bjarni og Vilborg eignuðust fimm börn; Siggerði Huldu, Sigurð Inga, Kristjönu Báru, Magnús Þór og Bryndísi Önnu. Barnabörnin eru 12, þar af eitt látið, og barnabarnabörnin eru 11.