Veruleg jákvæð áhrif af millilandafluginu
Ný rannsókn sýnir veruleg jákvæð áhrif af beinu millilandaflugi frá Akureyri.
Í rannsókninni kemur að 80% þeirra sem flogið hafa til útlanda um Akureyrarflugvöll telji flugið hafa aukið lífsgæði sín og það komi ekki á óvart. Fram kemur að ekki skipti máli hvort viðkomandi flugfarþegar séu búsettir á Norðurlandi vestra, Akureyri, annars staðar á Norðurlandi eystra eða á Austurlandi.
„Hins vegar vekur nokkra athygli að um helmingur íbúa á Norður- og Austurlandi sem ekki flugu um Akureyrarflugvöll á síðustu tólf mánuðum töldu beina flugið engu að síður hafa aukið lífsgæði sín. Hæst er þetta hlutfall meðal Akureyringa sem ekki hafa notfært sér flugið en fer lækkandi eftir því sem fjær dregur.“
- Rannsóknin kallast „Beint flug er næs“: Svæðisbundin áhrif millilandaflugs frá Akureyri.
- Höfundar eru Þóroddur Bjarnason, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands og rannsóknaprófessor í byggðafræði við Háskólann á Akureyri, Jón Þorvaldur Heiðarsson, hagfræðingur og lektor við viðskiptafræðideild Háskólans á Akureyri og Guðný Rós Jónsdóttir, MA nemi í félagsfræði við Háskóla Íslands. Rannsóknin var styrkt af Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra og Rannsóknasjóði Háskóla Íslands.
Niceair markaði þáttaskil
Höfundar segja stofnun Niceair snemma árs 2022 hafi markað ákveðin þáttaskil í millilandaflugi frá Akureyri. „Félagið var stofnað af hagsmunaaðilum á Norðurland og stefndi að reglubundnu áætlunarflugi með einni farþegaþotu til ýmissa áfangastaða í Evrópu árið um kring,“ segir þeir. Allmörg dæmi séu um að heimafólk í evrópskum smáborgum á stærð við Akureyri stofni flugfélög utan um rekstur einnar flugvélar en séu flest aðeins með eina litla skrúfuvél í ferðum til höfuðborgarinnar eða annarrar.
Í rannsókninni kemur fram að um þriðjungur Akureyringa hafi ferðast milli landa með Niceair á tíu mánaða tímabili 2022 til 2023.
„Flug Niceair til Kaupmannahafnar og Tenerife sýndi að heimamarkaðurinn á Norðurlandi eystra getur staðið undir reglubundnu millilandaflugi allan ársins hring en ferðir erlendra ferðamanna eru nauðsynlegar til að tryggja ásættanlega sætanýtingu á öllum leggjum. Þessar niðurstöður geta nýst til frekari uppbyggingar millilandaflugs um Akureyrarflugvöll.“
Þota Niceair kemur til Akureyrar í fyrsta skipti, 30. maí árið 2022. „Flug Niceair til Kaupmannahafnar og Tenerife sýndi að heimamarkaðurinn á Norðurlandi eystra getur staðið undir reglubundnu millilandaflugi allan ársins hring en ferðir erlendra ferðamanna eru nauðsynlegar til að tryggja ásættanlega sætanýtingu á öllum leggjum,“ segir í rannsókninni. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Í rannsókninni segir meðal annars um Niceair:
- Að jafnaði var sætanýtingin 62% en hún var þó mismunandi eftir áfangastöðum og tímabilum. Þannig var sætanýting í Kaupmannahafnarflugi Niceair 72–74% sumarið 2022 en aðeins 50–52% fyrstu þrjá mánuði ársins 2023.
- Sætanýting í Tenerife fluginu var jafnari en þó dró úr ferðum frá Akureyri til Tenerife fyrstu þrjá mánuði ársins 2023. Hér kann að hafa skipt máli að snemma árs 2023 gengu háværar sögur um rekstrarerfiðleika Niceair og líklegt má telja að það hafi dregið úr vilja fólks til að nýta sér flugið.
- Fjöldi einstaklinga frá einstökum svæðum á Norður- og Austurlandi endurspeglar að hluta til mannfjölda, en um helmingur allra íbúa Norðurlands er búsettur á Akureyri.
- Þegar farþegafjöldinn er umreiknaður sem hlutfall af íbúafjölda kemur í ljós að þeir 6.453 Akureyringar sem flugu einn eða fleiri leggi með Niceair samsvara þriðjungi allra íbúa á Akureyri.
- Farþegar búsettir annars staðar í Eyjafirði eða annars staðar á Norðurlandi eystra samsvara 15–18% íbúa þeirra svæða.
- Hins vegar virðist upptökusvæði Niceair ekki hafa náð að neinu marki vestur fyrir Öxnadalsheiði eða austur fyrir Möðrudalsöræfi.
- Þeir 179 íbúar Norðurlands vestra sem flugu með Niceair samsvara aðeins 2% íbúafjölda landshlutans og þeir 438 Austlendingar sem flugu með félaginu samsvara aðeins 4% íbúa Austurlands.
- Farþegar frá öllum öðrum landshlutum voru 384 talsins og samsvarar það um 0,1% annarra landsmanna