Fara í efni
Golf

Veigar Heiðarsson með glæstan sigur

Veigar Heiðarsosn

Veigar Heiðarsson, kornungur kylfingur úr Golfklúbbi Akureyrar, vann Icelandic Junior Midnight Challenge sem haldið var á Hlíðavelli 25.-28. júní. Mótið er hluti af Global Junior Golf mótaröðinni sem haldin er um allan heim og hefur mót í þessari mótaröð verið haldið hér á landi undanfarin ár. Með sigrinum ávann Veigar sér rétt til þátttöku í lokamótinu sem haldið verður í Portúgal í nóvember.

Tveir kylfingar frá GA tóku þátt í mótinu, Skúli Gunnar Ágústsson og Veigar Heiðarsson, en þeir voru á dögunum báðir valdir í piltalandslið Íslands fyrir þátttöku í Evrópumótinu í liðakeppni næsta mánuði.

Veigar vann mótið, spilaði samtals á sjö höggum undir pari. Hann lék hringina á 66, 70 og 73 höggum og var í harðri baráttu um sigurinn, en næsti maður lék á fimm höggum undir pari. Skúli Gunnar byrjaði af krafti og var þriðji eftir fyrsta daginn, en náði sér ekki á strik seinni tvo dagana og endaði á samtals 14 höggum yfir pari, spilaði hringina á 70, 79 og 81 höggi.

Frá þessu er sagt í frétt á vef Golfklúbbs Akureyrar.