Fara í efni
Golf

Skora á ríkisstjórnina að hefjast handa

Loftmynd af svæðinu sem skipulagsbreytingin við Þursaholt nær til.
Þrátt fyrir að skrifað hafi verið undir samning milli Akureyrarbæjar og heilbrigðisráðuneytisins árið 2019 um byggingu 80 hjúkrunarrýma hefur ekkert gerst í þeim málum að því er fram kemur í áskorun bæjarstjórnar til nýrrar ríkisstjórnar. Reynt hefur á þolinmæði bæjaryfirvalda sem skora nú á ríkisstjórnina að hefjast handa sem fyrst.
 
Bæjarstjórn Akureyrarbæjar samþykkti samhljóða fyrr í vikunni breytingu á Aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030 fyrir svæði norðaustan Krossanesbrautar. Í breytingunni felst að á lóðum við Þursaholt verði heimilt að byggja hjúkrunarheimili og aðra þjónustu við eldri borgara, auk íbúða. Þá verði heimilt að þróa svæðið í samhengi við hugmyndafræði um lífsgæðakjarna. Engar athugasemdir eða umsagnir bárust um tillöguna á auglýsingatíma hennar. Þá samþykkti bæjarstjórn einnig með 11 samhljóða atkvæðum breytingu á deiliskipulagi vegna Þursaholts 2-12.
 
Við afgreiðslu á aðalskipulagsbreytingunni var einnig samþykkt áskorun á nýja ríkisstjórn vegna byggingar hjúkrunarheimilis, þar sem nú eru tilbúnar tvær fullskipulagðar lóðir fyrir slíka starfsemi.
 
Áskorun bæjarstjórnar:
 
„Bæjarstjórn skorar á nýja ríkisstjórn að hefjast handa sem fyrst við byggingu hjúkrunarheimilis en nú eru tvær full skipulagðar lóðir tilbúnar fyrir starfsemina. Skrifað var undir samning 2019 um byggingu 80 hjúkrunarrýma og lítið sem ekkert gerst síðan þá.“