Fara í efni
Golf

Sjallinn í kvöld: „One hundred and eighty!“

Russ Bray og John McDonald sátu í Sjallanum og gáfu eiginhandaráritanir þegar Akureyri.net bar að garði síðdegis í dag. Hér er einn keppenda á mótinu með þeim, Ingibjörg Björnsdóttir – Bogga Bjöss úr Æskunni á Svalbarðsströnd, eins og hún vildi láta kalla sig. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Gera má ráð fyrir miklu fjöri í Sjallanum í kvöld á lokaspretti Akureyri open mótsins í pílukasti. Keppendur verða í aðalhlutverki en gera má ráð fyrir að ensku gestirnir tveir muni vekja mikla athygli; dómarinn og „kallarinn“ Russ Bray, sá sem í mörg ár hefur tilkynnt rámri röddu hve mörg stig keppandi fær þegar pílunum er kastað á heimsmeistaramótinu í London, og kynnirinn John McDonald.

Það er píludeild Þórs sem heldur Akureyri Open, sem Þórsarar hófu að kalla Sjally Pally eftir að það var flutt í Sjallann á síðasta ári, með vísan í Ally Pally, samkomuhúsið Alexandra Palace í London þar sem heimsmeistaramótið fer fram árlega.

Í Sjallanum síðdegis, frá vinstri: Darri Hrannar Björnsson sem er í mótanefnd, Russ Bray, Halldór Kristinn Harðarson staðarhaldari í Sjallanum, John McDonald og Davíð Örn Oddsson, formaður píludeildar Þórs. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Mótið hófst í gær og pílum var kastað um allt hús enda tóku 224 keppendur þátt – 192 karlar og 32 konur. Keppni í riðlum lauk síðdegis í dag og úrslitin fara fram í kvöld. Húsið verður opnað á ný klukkan 18.00 og um kl. 19.30 hefjast átta manna úrslit karla, sem fara fram á stóra sviðinu, ásamt úrslitaleik kvenna.

Viðureignir í átta manna úrslitum eru þessar:

  • Matthías Örn Friðriksson - Björn Lejon
  • Arngrímur Anton Ólafsson - Óskar Jónasson
  • Vitor Charrua - Friðrik Jakobsson
  • Alexander Veigar Þorvaldsson - Jón Oddur Hjálmtýsson

Úrslitaleikur í kvennaflokki:

  • Ingibjörg Magnúsdóttir - Kitta Einarsdóttir

Píludeild Þórs bryddar upp á þeirri fallegu nýjung að standa fyrir góðgerðarleik á mótinu og það fé sem safnast rennur til Hetjanna, félags langveikra barna á Norðurlandi.

Hæsta mögulega skor sem hægt er að fá í pílu er 180, þegar öllum þremur pílum í hverri umferð er kastað í reit sem kallast þrefaldur 20. Í hvert skipti sem keppandi nær 180 á Sjally Pally tryggir hann Hetjunum 5.000 krónur.

Vonandi á Russ Bray eftir að gleðja gesti Sjallans oft með frægasta kalli sínu: „One hundred and eighty!“

Fjórir styrktaraðilar taka þátt í góðgerðarleiknum og greiða þá upphæð sem safnast: Eyjabiti, Höldur - Bílaleiga Akureyrar, Coca Cola, og Skógarböðin.