Fara í efni
Golf

Naustagata 13: Verslun, þjónusta og íbúðir

Kista byggingarfélag, lóðarhafi Naustagötu 13, hefur í hyggju að reisa þar tvö hús með blöndu af verslun, þjónustu og íbúðum og hefur óskað eftir deiliskipulagsbreytingu á lóðinni með það fyrir augum að bæta nýtingu lóðarinnar til muna og koma þar fyrir vönduðu samspili verslunar- og þjónustu, og hugsanlega íbúðabyggðar, eins og það er orðað í greinargerð Kollgátu fyrir hönd lóðarhafans.

Þetta skjáskot af map.is sýnir með lauslegum teikningum blaðamanns svæðið á milli Haga- og Naustahverfis og skilgreiningu reita samkvæmt aðalskipulagi. Svæðið sem fjallað er um í þessari frétt er lengst til vinstri (vestast) á svæðinu, Naustagata 13.

Naustagata 13 liggur að Davíðshaga, sunnan við hringtorgið á mótum Kjarnagötu og Naustagötu, eins og sjá má á yfirlitsmyndinni hér að ofan. Appelsínugulu línurnar afmarka svæði sem skilgreind eru sem íbúðarsvæði.

Á yfirlitsmyndinni má einnig sjá lóðina sem afmörkuð hefur verið fyrir leikskóla á svæðinu. Samkeppni um hönnun og byggingu leikskólans hefur farið fram og varð tillaga Húsheildar Hyrnu fyrir valinu, eins og Akureyri.net greindi frá í frétt nú í vikunni. Bæjarráð hefur samþykkt að ganga til samninga við Húsheild Hyrnu. Akureyrarbær hefur nýlega auglýst breytingu á skipulagi svæðisins sem tekur til lóðarinnar Naust 2 þar sem afmörkuð er 9.328 fermetra lóð fyrir leikskólann úr landi Nausta II. Innakstur verður austan við lóðina frá Naustagötu. Niðurrif bæjarhúsa að Naustum II hefur verið heimilað. Frestur til að skila inn athugasemdum við þessa breytingu er til 15. ágúst.

Sóttu um framkvæmdafrest í febrúar

Upphafleg úthlutun lóðarinnar Naustagötu 13 til Kistu byggingarfélags var ákveðin af skipulagsráði 12. október 2022. Í febrúar 2024 var óskað eftir framkvæmdafresti, en skipulagsráð samþykkti þá ekki að veita frekari frest til framkvæmda á lóðinni og leit svo á að fresturinn rynni út 5. júní. 

Aftur kom umsókn frá lóðarhafa um framkvæmdafrest til afgreiðslu í skipulagsráði 10. apríl, þá sótt um frest til eins árs, en skipulagsráð samþykkti að veita umsækjanda frest til 5. september til að leggja fram tillögu að uppbyggingu á lóðinni. „Forsenda slíkrar tillögu er að byggingarmagn fyrir verslun og þjónustu á jarðhæð haldist óbreytt frá gildandi deiliskipulagi,“ segir í afgreiðslu ráðsins 10. apríl. Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista bókaði þá að hún teldi ekki forsvaranlegt að taka aftur mál á dagskrá sem afgreitt var 28. febrúar án þess að breytingar hafi orðið á forsendum. Sagði slík vinnubrögð ekki gefa gott fordæmi.

Aukið byggingarmagn og breytt skilgreining

Tillaga Kistu byggingarfélags um uppbyggingu á lóðinni kom til afgreiðslu í skipulagsráði núna í vikunni og samþykkti ráðið þá að veita framkvæmdafrest til 1. maí 2025. „Lóðarhafi leggur ríka áherslu á að fyrirliggjandi erindi fái jákvæða umfjöllun og skjóta afgreiðslu. Naustagata 13 er næsta verkefni á tímalínunni og ekki mun standa á lóðarhafa að hefja undirbúning að byggingu glæsilegra mannvirkja á lóðinni,“ segir meðal annars í umsókninni.

Teikning sem sýnir lögun fyrirhugaðra bygginga, ásamt afstöðu lóðarinnar og bygginganna gagnvart nærliggjandi götum og aðkomu úr hringtorginu. Skjáskot úr greinargerð Kollgátu.

Í meginatriðum felst umsóknin, vegna uppbyggingar á lóðinni, í eftirfarandi, samkvæmt afgreiðslu skipulagsráðs:

  • að lóðin verði skilgreind fyrir blandaða notkun verslunar- og þjónustu og íbúðabyggðar
  • að lágmarksbyggingarmagn verslunar- og þjónustu verði 1.045 fermetrar
  • að byggingarmagn lóðarinnar verði hækkað úr 950 fermetrum í 4.750 fermetra
  • að byggingarreitur verði endurmótaður
  • að gera megi ráð fyrir fimm hæða húsi á vesturhluta lóðar

Röksemd umsækjanda fyrir hækkuðu byggingarmagni eru að gildandi deiliskipulagsskilmálar geri ráð fyrir óásættanlegri nýtingu á „þessari annars stóru og vel staðsettu verslunar- og þjónustulóð,“ eins og segir í umsókninni. Bent er á að nýtingarhlutfallið 0,20 í gildandi skilmálum sé mjög lágt í samanburði við sambærilegar lóðir í stærri sveitarfélögum landsins. Einnig er bent á þörfina á að endurmóta byggingarreitinn og að gera megi ráð fyrir hærri byggingu en núgildandi skilmálar segja til um, meðal annars af því að núgildandi skilmálar taki ekki tillit til landhalla og því yrði mjög óhagkvæmt að byggja þarna einnar hæðar hús.


Fyrirhugaðar byggingar að Naustagötu 13 séðar frá ýmsum hliðum. Skjáskot úr umsókn Kollgátu.

Í greinargerðinni er byggingaráformunum lýst svo: „Forhönnun Kollgátu á lóðinni gerir ráð fyrir því að um verði að ræða tvo húskroppa sem verða aðskildir ofanjarðar til að mynda aðkomutorg fyrir verslun og þjónusturými sem liggi meðfram torginu að austan og vestan. Fyrirtæki eða íbúðir verði í hærri byggingunni að vestan en fyrirtæki í lægri byggingunni austan megin. Suðurhlið húsanna verður stölluð frá Davíðshaga til að gefa tækifæri á hönnun skjólgóðra og sólríkra svæða og L-form hússins gefur einnig tækifæri til góðrar skjólmyndunar og útsýnis til suðurs og vesturs.“

Skipulagsráð tók jákvætt í erindið og hefur falið skipulagsfulltrúa að hefja vinnu við aðalskipulagsbreytingu. Umsókn lóðarhafans innihélt einnig beiðni um framkvæmdafrest til 1. maí 2025. Halla Björk Reynisdóttir L-lista lýsti sig vanhæfa til að fjalla um umsóknina og vék ávallt af fundi þegar þetta mál kom til umræðu og afgreiðslu.