Metþátttaka í miðnæturgolfinu
Fleiri taka þátt í hinu árlega Arctic Open golfmóti á Jaðarsvelli sem hófst í dag en nokkru sinni fyrr. Skráðir keppendur í fyrra voru 250, sem var met, en nú eru þeir 285. Þar af eru 52 útlendingar frá átta þjóðlöndum.
Það var árið 1986 sem Golfklúbbur Akureyrar hélt þetta árlega, alþjóðlega golfmót í fyrsta sinn, þannig að nú fer það fram í 39. skipti.
Mótið, sem gjarnan er kennt við miðnætursólina, hefur notið mikilla vinsælda enda draumi líkast þegar það stendur undir nafni og leikið er í blóðrauðu sólarlagi um miðnæturbil. Þátttakendur dásama það gjarnan og erlendir kylfingar hafa lýst því fyrir blaðamanni hvernig þeir féllu hreinlega í stafi vegna fegurðarinnar. Sólin skín í dag en því miður er ekki líklegt að hún gleðji þá sem verða á ferð um golfvöllinn næstu tvær nætur.
Opnunarhátíð mótsins hófst kl. 11.00 í morgun og á slaginu 12.00 mundaði fyrsti hópurinn kylfurnar, sló af fyrsta teig og hvarf fljótlega sjónum. Síðustu keppendur fara ekki út fyrr en um hálftíma fyrir miðnætti og ljúka ekki leik fyrr en langt er liðið á nóttina.
Leikurinn er endurtekinn á morgun og herlegheitunum lýkur svo með veislu og verðlaunaafhendingu í golfskálanum að Jaðri á laugardagskvöldið.