Fara í efni
Golf

Listrænir foreldrar íshokkílandsliðskvenna

Kvennalandsliðið í íshokkí fer ótroðnar slóðir í fjáröflun fyrir þátttöku liðsins í undankeppni Ólympíuleikanna sem fram fór í desember og svo í B-riðli 2. deildar heimsmeistaramótsins sem fram fer í Póllandi í apríl. Efnt hefur verið til myndlistarlottós þar sem kaupendur miða eiga möguleika á að vinna eitt fimm listaverka – og ekki bara einhverra listaverka heldur eru þau öll eftir foreldra landsliðskvenna sem hafa gefið listaverkin sín í þessa söfnun.

Það segir svo ef til vill sína sögu um liðsandann í landsliðinu að stelpurnar eru ekki að safna hver fyrir sínum ferðakostnaði heldur í einn sameiginlegan pott. Silvía Rán Björgvinsdóttir, fyrirliði landsliðsins, segir viðtökurnar við þessari óvenjulegu fjáröflun hafa farið fram úr björtustu vonum. Silvía Rán segir stelpurnar í landsliðinu hafa tekið ákvörðun um það í fyrra þegar þær þurftu að greiða kostnað vegna landsliðsferðar að gera sitt allra besta í að safna upp í ferðir saman sem lið svo engin þeirra þyrfti að borga úr eigin vasa.

Slóvakía í desember, Pólland í apríl

Það gefur auga leið að þátttaka í svona verkefnum kostar mikla fjármuni og þarf hver og einn leikmaður að greiða um 200 þúsund krónur á þessu tímabili vegna ferðakostnaðar í þessi verkefni. Í auglýsingu fyrir myndlistarlottóið segir meðal annars: „Erfitt er að tefla fram einvala liði þegar okkar bestu leikmenn geta ekki tekið þátt vegna kostnaðar. Því óskum við eftir þínum stuðningi í þessu mikilvæga verkefni okkar.“

Stuðningurinn sem óskað er eftir felst semsagt í því að kaupa miða í myndlistarlottóinu þar sem í vinning eru fimm málverk og vekur sérstaka athygli að það frábæra listafólk sem landsliðið á í samstarfi við um þetta verkefni á það sameiginlegt að vera foreldrar kvenna í liðinu. Listafólkið hefur gefið verkin sem eru alls að andvirði yfir hálfri milljón. 

Þau sem gefið hafa verkin eru Jóhanna Bára Þórisdóttir, Karólína Baldvinsdóttir, Ragnar Hólm Ragnarsson og Sigurdís Gunnarsdóttir. Tvö þeirra eiga dætur í liði SA, ein í Fjölni og ein á dóttur sem spilar erlendis, en hóf ferilinn með SA. 
 
Ættfræðin
 
  • Jóhanna Bára Þórisdóttir - Eva María Karvelsdóttir, SA
  • Karólína Baldvinsdóttir - Sunna Björgvinsdóttir, Sodertelje SK í Svíþjóð
  • Ragnar Hólm Ragnarsson - Aðalheiður Anna Ragnarsdóttir, SA
  • Sigurdís Gunnarsdóttir - Elísa Dís Sigfinnsdóttir, Fjölni

Listaverkin

 
 
 
 
Í boði er að kaupa miða á 3.000 krónur, tvo á 5.000 eða fimm á 10.000 krónur. Landsliðskonurnar sjálfar hafa verið að auglýsa myndlistarlottóið á samfélagsmiðlum og væntanlega getur hver sem vill keypt af sínum uppáhaldsleikmanni, frænku í liðinu eða vinkonu, ef út í það er farið. En söfnunin er þó sameiginleg fyrir einn pott, eins og áður kom fram.
 
Þar sem þær eru að safna í einn sameiginlegan pott er engin mismunun í því að birta hér reikningsupplýsingar hjá Silvíu Rán. Hún birti sjálf auglýsingu á Facebook-síðu sinni þar sem fólk getur sett inn athugasemdir og pantað miða.

  • Kennitala: 090799-3049
  • Reikningsnúmer: 0162-26-009399
  • Skýring: lottó2025
Dregið verður sunnudaginn 12. janúar.