Fara í efni
Golf

KA vann Þór í Opna Norðlenska

Þórsarinn Hafþór Már Vignisson er mættur aftur norður og á hér í höggi við varnarmenn KA í leiknum í gær. Mynd: Akureyri.net.

Handboltavertíðin hófst með formlegum hætti hér á Akureyri í gær þegar æfingamótið Opna Norðlenska hófst með leik KA og Þórs. KA hafði betur 32-27. Eins og jafnan í viðureignum þessara liða var hart tekist á í leiknum, sem sjá má á myndunum neðst í fréttinni.

Bæði lið kynntu nýja leikmenn í gær, KA fær örventan Eistlending og Þór fær örvhentan Þórsara frá KA.

Fjögur lið taka þátt í mótinu, en HK og Selfoss mætast í kvöld. Leikið verður til úrslita á morgun. Tapliðið úr leik HK og Selfoss mætir Þórsurum í bronsleik kl. 12, en sigurliðið spilar við KA um gullið kl. 14:30. Báðir leikirnir fara fram í KA-heimilinu.

Dagur Árni með þrettán

KA-maðurinn Dagur Árni Heimisson er hins vegar staddur í Svartfjallalandi með U18 ára landsliðinu á Evrópumóti þar sem hann skoraði meðal annars 13 mörk í sigri á Færeyingum. Íslenska liðið er þar komið í átta liða úrslit.

Annar Eistlendingur í raðir KA

Handknattleiksdeild KA tilkynnti í gær um nýja leikmann sem félagið hefur samið við. Sá er 19 ára gamall, örvhentur leikmaður frá Eistlandi, Marcus Rättel að nafni. Eistlendingarnir eru þá orðnir tveir í röðum KA, en þar var fyrir Ott Varik, einnig örvhentur leikmaður.


Haddur Stefánsson, formaður handknattleiksdeildar KA, og Eistlendingurinn Markus Rättel handsala samninginn. Mynd: ka.is.

Í frétt félagsins segir meðal annars:

„Koma Marcus í KA eykur breiddina hægra megin á vellinum en á síðustu leiktíð voru þeir Ott og Einar Rafn Eiðsson einu örvhentu leikmenn liðsins. … Það mun klárlega aðstoða hinn unga Marcus að aðlagast nýju umhverfi að hafa Ott bókstaflega í sínu horni og hlökkum við mikið til að sjá hvernig Marcus kemur inn í okkar unga og efnilega lið.“

Kristján Gunnþórsson aftur heim

Þórsarar tilkynntu í gær um heimkomu Kristjáns Gunnþórssonar, örvhentrar skyttu, sem uppalinn er hjá félaginu en var um tíma á samningi hjá KA.


Páll Pálsson, formaður handknattleiksdeildar Þórs, og Kristján Gunnþórsson handsala samninginn. Mynd: Þór handbolti.