Fara í efni
Golf

Helmingur farþega í hvalaskoðun fólk af skemmtiferðaskipum

Sara Sigmundsdóttir, framkvæmdastjóri Akureyri Whale Watching, hvalaskoðunar á Eyjafirði. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

„Fyrir utan fyrstu vikuna í júní í hressandi norðanátt, hefur sumarið verið mjög fínt,“ segir Sara Sigmundsdóttir, framkvæmdastjóri Akureyri whale watching, hvalaskoðunarfyrirtækis á Akureyri. „Það er nóg að gera og hvalirnir eru búnir að vera nálægt bænum þannig að við höfum ekki þurft að sigla langt. Það er voðalega gott, sparar tíma og olíu.“

Fyrirtækið er með fastar ferðir allt árið, en þegar mikið er að gera er bætt við. „Þegar skemmtiferðarskipin koma, erum við með fleiri ferðir,“ segir Sara. „Ef það kemur skip klukkan níu, þá höfum við ferð klukkan tíu. Ég myndi segja, án þess að hafa tölurnar hjá mér, að rúmlega helmingur viðskiptavina okkar í sumar komi af skemmtiferðarskipunum.“

„Það slæðist einn og einn Íslendingur með hjá okkur á sumrin,“ segir Sara. „Það er svona innan við eitt prósentið, en þau bóka gjarnan á netinu og þar sér maður svona eitt og eitt íslenskt nafn.“ Spurð um fjölda farþega segir Sara það mjög mismunandi eftir dögum, allt frá 100 til um 1000 farþega á dag.

Mynd: Þorgeir Baldursson

Vegna þess, hve fjörðurinn er langur og mjór, er oft rólegra í sjóinn hér en í breiðari fjörðum

Gestirnir geta helst búist við því að sjá hnúfubaka og hrefnur í ferðunum. „Það er líka stundum hægt að sjá höfrunga og síðustu sumur hafa grindhvalir og andanefjur látið sjá sig, en ekki fyrr en í júlí og ágúst, þannig að kannski koma þau fljótlega,“ segir Sara. „Leiðsögumennirnir okkar verða mjög spenntir stundum, þegar við sjáum tegundir sem eru sjaldséðari á firðinum. Stundum sjáum við steypireyðar eða langreyðar. Gestunum finnst allt spennandi.“

Eyjafjörður kjörinn fyrir sjóveika hvalaskoðara

Aðspurð að því hvort að sjóveikir gestir séu algeng sjón, segir Sara að það sé í miklu lágmarki, þar sem Eyjafjörðurinn sé sérstaklega góður hvalaskoðunarfjörður fyrir sjóveika. „Vegna þess, hve fjörðurinn er langur og mjór, er oft rólegra í sjóinn hér en í breiðari fjörðum,“ segir hún. „Það gerist alveg að það verði slæm veðurskilyrði, sérstaklega í sunnanátt, en lang oftast njótum við þess hvernig fjörðurinn er í laginu. Fyrir fólk sem verður gjarnan veikt á sjó, er Eyjafjörður sennilega besti staðurinn til þess að fara í hvalaskoðun. Alveg hlutlaust mat!“ Hún bendir á að það sé líka betra þegar ekki þarf að leita langt eftir hvölunum, gjarnan sé meiri hreyfing á bátunum þegar utar kemur.

Framkvæmdir við nýtt hús hvalaskoðunarinnar eru á lokametrunum. Steyptar tröppur vísa til suðurs þar sem gestir geta setið og notið útsýnis yfir Pollinn og miðbæinn. Mynd: Þorgeir Baldursson

Nýja húsnæðið tekið í notkun á næstu vikum

Framkvæmdir hafa verið í gangi á húsnæði fyrirtækisins undanfarnar vikur, en hingað til hefur fyrirtækið verið með tvö gámahýsi sitthvorum megin við smábátabryggjuna. Gámahýsin tvö verða fjarlægð á næstu mánuðum. Sara segir öll mjög spennt fyrir því að flytja inn á næstu vikum. „Við erum búin að ætla að byggja í langan tíma,“ segir hún. „Covid setti strik í reikninginn en núna er þetta loksins að gerast. Við erum löngu búin að sprengja núverandi húsnæði utan af okkur og þegar veðrið er ekki gott er mjög þröngt hérna með stærri hópa. Svo erum við með allskona búnað og galla sem við höfum þurft að geyma annarsstaðar, en verður nóg pláss fyrir í nýja húsinu.“

„Upphaflega átti byggingin að vera á einni hæð, en við erum spennt fyrir því að hafa hækkað í tvær hæðir og gera eitthvað sniðugt þarna uppi. Kannski kaffihús eða eitthvað, það er ekkert ákveðið með það, við ætlum að fara í hugmyndavinnu í haust og vetur með þetta.“ Efri hæðin mun státa af góðu útsýni yfir fjörðinn og svölum í tvær áttir, auk þess að steyptar tröppur verða til suðurs, þar sem hægt verður að sitja úti. „Þeir ætla að klára framkvæmdirnar eftir svona tvær vikur, þannig að planið er að flytja inn bráðlega. Þetta verður yndislegt,“ segir Sara að lokum. 

Hér er heimasíða Akureyri Whale Watching fyrir áhugasöm.

Framkvæmdir í fullum gangi og hópur ferðamanna af skemmtiferðaskipi dagsins er klár í hvalaskoðun fyrir utan. Mynd: RH