Fara í efni
Golf

Guðfinna Kristín til liðs við Ungmennafélagið

Guðfinna Kristín Björnsdóttir, ein efnilegasta hlaupakona landsins, er gengin til liðs við Ungmennafélag Akureyrar (UFA).

Hlaupaferill Guðfinnu Kristínar er ekki langur. Hún lék knattspyrnu frá unga aldri, er fædd og uppalin á Seltjarnarnesi og lék með Gróttu, auk þess Gróttu/KR og Þrótti, en byrjaði að hlaupa eftir að knattspyrnuskórnir fóru á hilluna árið 2021 og hefur náð mjög athyglisverðum árangri á stuttum tíma.  Árið 2023 sigraði hún í Hvítasunnuhlaupi Hauka og varð ofarlega í helstu keppnishlaupum landsins það sumar.

Síðastliðið sumar sigraði Guðfinna bæði í Þorvaldsdalsskokkinu og Kerlingafjöll ultra, hún varð í 6. sæti í Hammer trail í Danmörku, 4. sæti í Laugaveginum og 3. sæti í Súlur Vertical (43 km) á Akureyri. Guðfinna lauk hlaupasumrinu í Sviss þar sem hún keppti í Wildstrubel (70 km) og endaði í 7. sæti.

Nú er komið að því að halda áfram að skrifa hlaupasöguna og stefnir Guðfinna á að bæta brautarhlaupum við í keppnisdagskrána á næstu misserum. Henni finnst hindrunarhlaup og millivegalengdir mest spennandi.

Guðfinna, sem stundar nám í læknisfræði í Danmörku þessa stundina, segist vera spennt fyrir samstarfinu við UFA og hana hlakki til að keppa fyrir félagið á brautinni á komandi keppnistímabili.