Golf: Andrea Ýr í undanúrslitum í dag
Íslandsmótið í holukeppni í golfi fer fram á Hamarsvelli við Borgarnes um helgina. Andrea Ýr Ásmundsdóttir úr Golfklúbbi Akureyrar er komin í undanúrslit, en lokadagur mótsins er í dag.
Keppnisfyrirkomulagið á Íslandsmótinu í holukeppni er breytt frá því sem verið hefur, en þetta er í 36. skipti sem mótið fer fram. Í stað riðlakeppni sem áður var notuð fór nú fram höggleikur, spilaðar 36 holur á Hamarsvelli á fyrsta keppnisdegi. Að því búnu fóru 16 efstu konur áfram í útsláttarkeppni, en 30 konur voru skráðar til leiks. Andrea Ýr var eini keppandinn frá GA á mótinu.
Andrea Ýr var á sjötta besta skorinu eftir höggleikinn, spilaði holurnar 36 á 144 höggum eða tveimur yfir pari, fór báða hringina á 72 höggum. Hún sigraði síðan Arnýju Eik Dagsdóttur úr Golfklúbbi Reykjavíkur í 16 manna úrslitum í jöfnum leik þar sem úrslitin réðust eftir 21 holu og sigraði Ragnhildi Kristinsdóttur úr Golfklúbbi Reykjavíkur í átta manna úrslitum, einnig í jöfnum leik þar sem þurfti 19 holur til að knýja fram úrslit.
Undanúrslit og úrslitaviðureignir verða spilaðar í dag. Andrea Ýr mætir Perlu Sól Sigurbrandsdóttur úr GR í undanúrslitum, en þær verða ræstar út kl. 7:38.