Fara í efni
Golf

Fimm högg rosalega lítill munur á 4 daga móti

Tumi Hrafn Kúld púttar á 18. flöt í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

„Þetta var góður dagur, ég get ekki kvartað undan neinu,“ sagði Tumi Hrafn Kúld úr GA við Akureyri.net eftir síðasta dag Íslandsmótsins í golfi á Jaðarsvelli. Hann lék hringina fjóra á einu höggi undir pari og varð í 3. til 6. sæti.

Tumi sagðist oftast hafa hitt vel í dag, bæði úr upphafshöggi inn á braut og aftur inn á flatirnar. „Nokkur af fuglapúttunum hefðu mátt detta en ég setti niður nokkur mjög góð pútt fyrir pari. Ég er því ánægður; ég sló vel og púttaði vel en þegar ég hugsa til baka hefði ég mátt vera agressívari sums staðar,“ sagði Tumi. Slíkar hugsanir skjóti alltaf upp kollinum.

„Í lokin voru bara fimm högg í fyrsta sætið og það er rosalega lítið eftir fjögurra daga mót. Þá fer maður að hugsa um hvað hefði verið hægt að gera betur hér og þar ... En allt í allt er ég mjög sáttur við mótið.“

Mjög ánægður

Tumi upplýsti í viðtali sem birtist á Akureyri.net í gærkvöldi að hann hefði skorið sig illa þumalfingri vinstri handar að morgni föstudagsins, áður en hann lék annan hring mótsins. Sagðist þó í gær stefna að því að sigra. Hann fann mikið til í fingrinum á föstudag en sagði í að gær að ekkert þýddi að hugsa um það heldur yrði að harka af sér og klára mótið.

Þegar spurt var um ástand fingursins í mótslok sagði Tumi einfaldlega: „Ég spilaði í raun nákvæmlega eins alla fjóra dagana, eini munurinn var að eitt og eitt pútt datt fyrsta og þriðja daginn, þegar ég spilaði undir pari. En ég er mjög ánægður með að spila völlinn – sem er ekki kallaður Stóri Boli fyrir ekki neitt – undir pari á fjögurra daga móti, sérstaklega eftir að hafa þurft að aðlaga mig að því að hafa slasast smávegis.“

Vill vinna fyrir samfélagið

Tumi stundar nám við Western Carolina háskólann Norður-Karolínu í Bandaríkjunum. Hefur verið hér heima í sumar og vann á sambýli fyrir erfiða einstaklinga, en heldur utan á fimmtudaginn og keppnistímabilið hefst í byrjun september. „Ég hef verið heima í allt sumar en lagði mesta áherslu á það, varðandi golfið, að hvíla mig; ég æfði að vísu vel en hvíldi mig að því leyti að ég keppti lítið. Keppnistímabilið úti er níu mánuðir og mér fannst ég verða að gera þetta.“

Kylfingurinn hyggst útskrifast með tvær háskólagráður; annars vegar í afbrotafræði, hins vegar í neyðar- og hamfarastjórnun.

Þegar spurt er hvers vegna hann hafi valið þessi fög, sem ekki hafa verið áberandi í umræðu þegar háskólanám er annars vegar, segir Tumi að hann langi að vinna sem mest fyrir samfélagið.

„Mamma mín er þroskaþjálfi og hefur alltaf unnið við að hjálpa fólki. Pabbi stofnaði Öryggismiðstöðina um aldamótin á Akranesi og hefur líka unnið hjá Neyðarlínunni,“ segir Tumi til útskýringar og bætir við að systir hans sé hjúkrunarfræðingur. „Ég fór í þessar greinar vegna þess að mig dreymir um að hjálpa sem mest til í samfélaginu. Ég gæti hugsað mér að vera lögga, jafnvel rannsóknarlögregla. Það er í raun draumurinn,“ segir Tumi Hrafn Kúld.

Tumi Hrafn Kúld og unnusta hans, KyLee Johnson, sem var kylfuberi Tuma á Íslandsmótinu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.