Fara í efni
Golf

Eyþór og Andrea efst eftir fyrsta dag

Eyþór Hrafnar Ketilsson slær af 10. teig á Jaðarsvelli í dag. Hann hefur tveggja högga forystu eftir fyrsta dag Akureyrarmótsins. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Eyþór Hrafnar Ketilsson og Andrea Ýr Ásmundsdóttir eru með forystu í meistaraflokki á Akureyrarmótinu í golfi sem hófst í dag.

Andrea Ýr er strax komin með örugga forystu í meistaraflokki kvenna. Þrjár leika þar, Andrea Ýr er á tveimur höggum yfir pari eftir fyrsta daginn - lék á 73 höggum. Kara Líf Antonsdóttir og Kristín Lind Arnþórsdóttir léku báðar á 82 höggum í dag.

Spennan er mun meiri í meistaraflokki karla. Eyþór Hrafnar  Ketilsson er efstur á 72 höggum eftir fyrstu 18 holurnar, einu höggi yfir pari vallarins og þeir Tumi Hrafn Kúld og Veigar Heiðarsson, sem er aðeins 15 ára, eru tveimur höggum á eftir. Akureyrarmeistarinn frá síðasta ári, Lárus Ingi Antonsson, lék á 75 höggum í dag.

Staðan er þessi í meistaraflokki karla:

  • 72 Eyþór Hrafnar Ketilsson - 1 högg yfir pari
  • 74 Tumi Hrafn Kúld - 3 yfir pari
  • 74 Veigar heiðarsson - 3 yfir pari
  • 75 Lárus Ingi Antonsson - 4 yfir pari
  • 76 Magnús Ifinnsson - 5 yfir pari
  • 79 Örvar Samúelsson - 8 yfir pari
  • 79 Patrik Róbertsson - 8 yfir pari
  • 81 Óskar Páll Valsson - 10 yfir pari
  • 81 Mikael Máni Sigurðsson - 10 yfir pari 

Andrea Ýr Ásmundsdóttir á 10. teig Jaðarsvallar í dag. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Eyþór Hrafn Ketilsson og Veigar Heiðarsson, til hægri, voru saman í ráshópi í dag ásamt Lárusi Inga Antonssyni, sem er aftastur á myndinni. Fyrir framan hann er Guðríður Sveinsdóttir móðir Veigars.

Tumi Hrafn Kúld, sem er í öðru sæti ásamt Veigari Heiðarssyni, slær af teig í dag.