Fara í efni
Golf

Alsælir kylfingar á góðum Jaðarsvelli

Sævar Gunnarsson, til vinstri, og Þorsteinn Friðriksson rétt áður en þeir hófu leik í morgun. Starfsmenn GA eru við vinnu víða á vellinum, m.a. á 18 braut eins og sjá má í fjarska. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Golfvöllurinn að Jaðri var opnaður á ný í gær eftir að hafa verið lokaður í tæpan mánuð.

Slík einmunablíða hefur verið undanfarið að völlurinn er í góðu ástandi og þeir kylfingar sem Akureyri.net hitti á vellinum í morgun voru himinlifandi. „Það er dásamlegt að komast út á völl á þessum árstíma – og í svona góðu veðri,“ sagði einn þeirra. Hiti er reyndar ekki nema fimm stig en logn er á Akureyri og sólin skín, afar milt og gott veður.

Steindór Ragnarsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Akureyrar, segir að völlurinn verði að minnsta kosti opinn til þriðjudags gangi veðurspá eftir. Brautir 10 til 17 eru opnar á vellinum. Ekki er algengt að spilað sé á Jaðarsvelli svona síða árs en þó alls ekki einsdæmi. Til dæmis var haldið mót á vellinum 18. desember árið 2016!

Akureyri.net hitti fjóra kappa þar sem þeir púttuðu á 13. flöt. Þar voru á ferð Magnús Gíslason, Hreiðar Gíslason, Pétur Sigurðsson og Guðmundur Finnsson.  „Fjórir Þórsarar – taktu það fram!“ sagði einn þeirra eftir að hafa púttað.

Magnús Gíslason púttar, Hreiðar Gíslason, Pétur Sigurðsson og Guðmundur Finnsson fylgjast með.

Hreiðar Gíslason kampakátur enda nýbúinn að setja niður langt pútt!

Pétur Sigurðsson einbeittur á svip þegar hann púttar.