Þegar Jesús fæddist í fjölskylduboði
Um hátíðarnar birtir Akureyri.net predikanir prestanna við Akureyrarkirkju og Glerárkirkju.
Séra Sindri Geir Óskarsson sóknarprestur í Glerárprestakalli predikaði við aftansöng í Glerárkirkju síðdegis í dag, aðfangadag.
(Til lesenda akureyri.net. Gleðileg jól kæru, takk fyrir að líta á prédikun aðfangadags. Þessi fer aðeins út fyrir hefðbundna túlkun á jólaguðspjallinu en það er í lagi. Hins vegar er það svo að prédikun er atburður, hún er skrifuð til flutnings og er því lifandi. Það sem er á blaðinu er sjaldnast eins og það sem hljómar í kirkjunni. Þessi texti ber þess merki að vera ekki skrifaður sem grein eða hugvekja ætluð til prents, þið lifið með því. Ef ykkur líkar það sem þið lesið vil ég hvetja ykkur til að koma til kirkju um hátíðirnar og heyra prédikanir fluttar í sínu náttúrulega umhverfi, ég mæli með. Góðar stundir.)
Guðspjall aðfangadags er jólaguðspjallið eins og það stendur skrifað hjá Lúkasi.
Það er hægt að lesa hér, annar kafli, vers 1-20.
Náð, friður og kærleiki Guðs sé með okkur – Amen.
I.
Þar sem ég sat í eldhúsinu heima og raðaði saman messu kvöldsins var ég umvafinn, umkringdur - varð nánast fyrir umsátri föndurs frá börnunum mínum. Það hefur verið stíf framleiðsla síðan jólafríið hófst, sumt á veggjum og hillum er eldra, frá fyrri jólum, þarna er meira að segja föndur sem hefur lifað af frá því ég og konan mín vorum sjálf í grunnskóla - það eigulega, föndrið sem ekki hvarf eftir jól og hefur lifað af niðurskurðinn ár eftir ár. Allt er þetta dregið fram á aðventunni því þetta eru kveikjur. Þetta og svo margt annað sem við eigum, geymum eða berum með okkur eru minningakveikjur sem tengja okkur við annað tímabil í lífinu, annað fólk.
Mörg okkar bera þessar minningakveikjur í vasanum. Sími flestra okkar er að drukkna í minningum, við tökum jafn margar myndir á eftirmiðdegi og amma eða afi tóku á ári. En á milli myndanna af ilmkertinu hennar Höllu frænku sem lyktaði svo vel, bókarinnar sem við smelltum mynd af því við ætluðum einn daginn að lesa hana, myndanna af morgunkaffibollanum eða hádegismatnum og skjáskotanna af guð má vita hverju – þar eru gullmolar.
Ég fann einn slíkan í haust, myndband af börnunum mínum að spyrja langafa sinn um hans æskuminningar af jólum í Reykjadal upp úr 1930. Hann var minnugur, af kynslóð sem gat ekki úthýst minningunum eða minningarkveikjunum yfir í símann, svo það stóð ekki á svörum.
Það sem stóð upp úr – voru lýsingarnar á samveru með fólki, með foreldrum hans og systkinum, með stórfjölskyldunni. Hann nefndi ekki gjafir og talaði lítið um hátíðarmat eða veislur, en hann talaði um undirbúninginn með fólkinu sínu, hvernig hann og systkini hans smíðuðu jólatré með pabba sínum, hvernig stórfjölskyldan varði heilum degi í að skera og steikja laufabrauð, þau spjölluðu, sungu og skemmtu sér við verkið. Það sem lifði með honum þegar hann nálgaðist tíræðisaldurinn var samveran með fólkinu sínu.
II.
Ég hugsa að við getum tengt við það. Þetta er fjölskylduhátíð. Þess vegna er pínu undarlegt að jólaguðspjallið okkar, sagan sem við þekkjum og kunnum flest utan að – hana vantar töluvert af þeirri fegurð tengsla og samfélags sem við tengjum jólunum. Þegar við förum með hana hér á aðventunni fyrir leikskóla- og grunnskólabörn sem koma í heimsóknir lýsum við því hvernig parið gekk á milli gistiheimila og var vísað burt því allt var fullt, þar til einhver fann til með þeim og bauð þeim að gista í fjárhúsinu. Og um kalda jólanóttina fæddist Kristur, litla fjölskyldan var þar í myrkrinu, ein, útilokuð.
Ljós heimsins fæddist inn í myrkur heimsins – sú mynd sem við höfum mörg heyrt prédikaða um jól ber mikilvæga guðfræðilega, já og samfélagspólitíska sýn á það hvernig Guð er. Að Immanúel, Guð sem er með okkur, fæðist inn í veruleikann sem við viljum mörg hver ekki sjá. Á hátíð samveru, samfélags og fegurðar dregur þetta fram mjög skarpa aðgreiningu. Að Guð tekur sér stöðu með þeim sem eru útilokuð, kúguð, einmana, í sorg, þjáningu eða lifa við fátækt. Það ætti því að segja okkur eitthvað um samfélagið okkar, um þá umgjörð hversdagsleikans sem mannkyn hefur skapað og viðheldur – að Guð ákveði að fæðast á jaðrinum, í óvissunni og erfiðleikunum. Þessi jól í ár, þegar leiksvið guðspjallsins er enn einu sinni vígvöllur, þá miðlar þessi sýn á frásögnina þeim einfalda sannleik og veruleika að í ógeði stríðsátaka sé Guð í eldlínunni, með Maríum og Jósefum þessa heims, og börnum þeirra, sem valdhafar virða einskis, þau eru tölfræði ekki fólk, óvinir en ekki sköpun Guðs. Að guð gerist maður og sé með okkur í mennskunni er hrópandi ákall um virði og gildi hvers lífs. Ákall um að lífið og mennskan snúist um tengsl, um samfélag.
III.
Mig langar í kvöld að bjóða ykkur annan ramma fyrir fæðingarsögu frelsarans en við erum vön. Við ætlum aðeins út fyrir boxið. Sum eiga erfitt með að hægt sé að túlka Biblíuna á ýmsan hátt, en ég sé fegurð í því, við mannfólkið erum fjölbreytt og skiljum og skynjum ólíka þræði í ritningunni – en samt sem áður mun þessi túlkun, að Jesús hafði komið í heiminn á miðju ættarmóti, umvafinn frænkum og frændum, - lenda guðfræðilega á svipuðum stað og almenna túlkunin – að verkefni Guðs í þessum heimi snýst um tengsl. Í staðinn fyrir að draga upp fæðingarsögu með útilokun og skort á tengslum sem sýnir okkur óæskilegt ástand, þá vörpum við ljósi á hvernig fæðingarsagan sýnir okkur frekar fyrirmyndartengslin, fjölskylduna sem stendur saman, samfélagið sem tekur utan um hvert annað.
IV.
Guðspjallið eins og það er skráð í Nýja testamentið er frekar strípað. Þegar ég fer með það fyrir börn bæti ég við asnanum og gistihúsaeigendunum eins og við erum flest vön þótt hvorki sé asni eða gistihúsaeigandi, og ekki einu sinni fjárhús í sjálfu guðspjallinu. Svo nú fer ég með guðspjallið eins og ég myndi flytja það fyrir skólahóp, ef við gerðum ráð fyrir að Jesús hefði fæðst á fjölskyldusamkomu en ekki í fjárhúsi.
Ferðalagið frá Nasaret til Betlehem var langt og María var orðin þreytt í bakinu eftir að hafa hossast á asnanum í þrjá daga. Hún var að missa vonina um að þau kæmist á leiðarenda fyrir kvöldið þegar Jósef bendir á hæð við sjóndeildarhringinn „þarna, við erum alveg að koma“. Hann var spenntur, þetta var ættborg hans, þarna átti hann stóra fjölskyldu, þarna var hann fæddur og hafði alist upp, og nú skyldi hann skrásettur með sínu fólki líkt og keisarinn fór fram á.
Í bænum voru engin hótel eða gistiheimili líkt og við þekkjum þau í dag, það var fólk sem hafði tekjur af því að selja ferðalöngum mat og gistipláss, en flest fólk reiddi sig fyrst og fremst á gestrisni ættingja og vina, eða fólks sem starfaði við sömu iðn. Netagerðamaður leitaði uppi netagerðamann og baðst gistingar.
En hér var Jósep á heimavelli og stefnan var tekin á heimili ættingja, mögulega bróður Jóseps eða frænku og frænda. Þar sem öllum hafði verið stefnt saman til Betlehem var ekki pláss…jah, í guðspjallinu sem ég las í kvöld stendur „gistihúsi“ – en í eldri íslenskum biblíuþýðingum stendur „gestaherberginu“ – og það er réttara orð ef við skoðum upprunalega textann.
Stórfjölskyldan var komin saman á þessu heimili í Betlehem svo það var ekki pláss fyrir Maríu og Jósep í gestaherberginu.
Heimili þessa tíma voru ekki svo ósvipuð gömlu íslensku bæjunum, yfirleitt voru þetta hús á tveim hæðum, á efri hæðinni var alrými, baðstofa þar sem var unnið og sofið, á neðri hæðinni var eldhús, mögulega verkstæði eða vinnurými og svo gripahús. Á efri hæðinni var gert ráð fyrir gistirými handa gestum, en það var allt fullt, svo María og Jósep og eflaust fleiri gerðu sér gott úr því að sofa niðri í eldhúsi, eða í heyinu hjá dýrunum.
En meðan þau voru þar kom sá tími er hún skyldi verða léttari. Á miðju ættarmóti kom Jesús í heiminn, það ætlar enginn að segja mér að María hafi ekki verið leidd í gegnum hríðirnar af eldri frænkum, reynslumiklum konum sem kunnu öll handtökin og studdu ungu móðurina. Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu, þar sem frænkur og frændur komu og dáðust að litla krílinu, fögnuðu þessu nýja lífi, þessum nýja frænda.
En í miðri gleðinni banka skyndilega hirðar upp á – og segjast vera sendir af englum til að votta barninu virðingu sína, því þetta sé frelsarinn, Kristur Drottinn, sem þjóðin hefur beðið um aldir.
Og svo ég lesi beint upp úr guðspjallinu sem við þekkjum svo vel: «Og allir sem heyrðu undruðust það er hirðarnir sögðu þeim. En María geymdi allt þetta í hjarta sér og hugleiddi það.»
Allir sem heyrðu. Því þetta voru ekki bara María og Jósep þarna við jötuna. Þarna var fólkið þeirra, samfélagið, hin fyrstu jól og enn í dag er þetta tími þar sem við komum saman, tími tengsla. Það fyrsta sem Guð upplifði sem maður í Kristi voru tengslin, traustar hendur frænku sem tók á móti honum fagnandi og lagði að brjósti móður, frændsystkin störðu stórum augum á nýja væntanlega leikfélagann, María Jósep og krílið, fengu kossa og knús - frá fyrsta andartaki var lífið velkomið og umvafið elsku. Það er hið kristna svar við veruleikanum. Fögnuður og elska. Tengsl. Kærleiksrík tengsl.
V.
Annar rammi um jólasöguna. Framandi, en það er pláss fyrir hann í guðspjallafrásögninni, og hvort sem við veljum fjárhúsið eða fjölskyldusamkomuna þá liggja þar áþekkir þræðir. Að jólin séu ekki aðeins hátíð, heldur verkefni. Verkefni um tengsl, umhyggju og nærveru. Að við getum verið farvegur fyrir kærleika og ljós heimsins.
Það er ekkert jólaskraut heima sem er kveikja fyrir þessa útgáfu af jólaguðspjallinu. En kannski reynum við að sýna þennan boðskap jólanna í verki á einhvern hátt yfir hátíðirnar.
Þegar Guð valdi að fæðast meðal okkar, kaus hann ekki höll eða völd, heldur tengsl og kærleika. Í því felst áminning fyrir okkur öll að jólaboðskapurinn lifir ekki í fortíðinni – hann lifir í því hvernig við bregðumst við í dag.
Á þessum dögum, þegar jólaljósin lýsa skært, skulum við vera minnt á að við getum öll verið ljós fyrir hvort annað. Við getum tekið utan um þau sem þurfa á okkur að halda, verið rödd vonar í erfiðum aðstæðum og skapað samfélag þar sem við byggjum brýr, bætum tengsl, fellum múra og veljum frið.
Ég þekki ekki þín jól, ekki þínar kveikjur. En ég bið þess að þessi jól verði þér hátíð umhyggju, vonar og friðar. Að jólin minni okkur öll á að í hversdagsleika tengsla og umhyggju, þar finnum við Guð.
Svo megi friður Guðs sem er æðri öllum skilningi varðveita huga okkar og hjörtu í Kristi Jesú, í dag og alla daga.
Amen.