Verkfall dæmt ólöglegt og kennarar mæta á ný

Félagsdómur dæmdi í dag verkföll Kennarasambands Íslands í 13 leikskólum og sjö grunnskólum víða um land ólögmæt. Verkfall var í einum skóla á Akureyri, leikskólanum Hulduheimum, og kennarar þar mæta því til starfa þar eins og annars staðar í fyrramálið, á mánudagsmorgni.
Tveir dómarar við Félagsdóm skiluðu sératkvæði í málinu, sem Samband íslenskra sveitarfélaga höfðaði gegn Kennarasamband Íslands, en meirihlutinn, þrír dómarar af fimm, töldu verkföllin ólögmæt að undanskildu verkfalli í Leikskóla Snæfellsbæjar.
„Í ljósi niðurstöðu Félagsdóms vill Kennarasambandið koma því skýrt á framfæri við félagsfólk sem lagði niður störf vegna verkfalla þann 1. febrúar sl. að það mæti til vinnu í fyrramálið og sinni sínum hefðbundnu störfum,“ segir í tilkynningu á vef Kennarasambands Íslands í kvöld.
Ætluðu að opna deild þeirra yngstu
Áður en úrskurður Félagsdóms var birtur undir kvöld hafði foreldrum yngstu barna á Hulduheimum verið tilkynnt að deildin yrði opnuð frá og með morgundeginum, þrátt fyrir verkfall. Skólastjóri og aðstoðarskólastjóri Hulduheima voru ekki í verkfalli, ekki frekar en ófaglært starfsfólk, og Akureyrarbær ákvað í síðustu viku að sá hópur myndi sinna börnunum frá og með morgundeginum.
Skólinn er á tveimur stöðum og ráðgert var að þar yrði opið til skiptis; öll 20 börn yngstu deildar á Síðuseli við Kjalarsíðu gætu mætt mánudaga, miðvikudaga og föstudaga og hluti barna á Holtakoti við Þverholt á þriðjudögum og fimmtudögum. Dregið hafði verið um hvaða börn mættu koma á Holtakot og var fjöldinn ákveðinn með tilliti til þess hve ófaglærðu starfsmennirnir eru margir, því ekki má flytja þá á milli deilda.
Þessi áform hafa nú verið lögð til hliðar þar sem verkfallið var dæmt ólöglegt og skólastarf verður því aftur með hefðbundnum hætti.


Aðventa

Magnús verkefnastjóri í gervigreind við HA

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Lýðræði á tímum gervigreindar
