Fara í efni
Gervigreind

Samtalsráðgjöf við spunagreind, leiðbeiningar fyrir mannfólk

GERVIGREIND - 2

Inngangur

Gervigreind er að þróast hratt og býður upp á ótrúlega möguleika. Það getur reynst nokkuð snúið að læra á hana og sérstaklega að fá þá útkomu sem maður leitar eftir. Mér finnst best að læra á þetta með því að prófa sjálfur, þannig fæ ég betri tilfinningu fyrir því hvernig þetta virkar og hvaða takmarkanir tæknin hefur. Þegar maður er að prófa getur verið gott að hafa leiðbeiningar til hliðsjónar. Þessi pistill sem er helgaður textafyrirmælum (text prompting) er ætlaður til að hjálpa þér að komast af stað og nýta þessa tækni á árangursríkan hátt.

Yfirskrift námskeiðsins í lágkóðagagnavísindum hjá Oxford sem ég tók var: „Gervigreindin mun ekki taka störfin, fólk sem notar gervigreind mun hins vegar gera það“. Með því að gera dæmi með skýringum vonast ég til að pistlarnir geri fleirum kleift að öðlast nýja hæfni og færni í notkun spunagreindar. Ég er ekki að auglýsa neitt sérstakt módel og get ekki sagt hvað er best. En ef þú vilt prófa þá mæli ég með ChatGPT. Það er einfalt að byrja og þú getur prófað frítt með því að skrá þig á www.chatgpt.com.

Hvað eru textafyrirmæli?

Einföld skýring á textafyrirmælum er að þetta er samtal við módelið sem svipar mjög til annarra samskipta, t.d. SMS eða Messenger. Skilaboð geta verið skrifuð rétt eins og maður væri í samtali við manneskju, ímyndaðu þér bara að þú sért í samtali við sérvitran sérfræðing sem hefur ekki hugmynd um hvaða hlutverki hann á að gegna.

Það sem gerir spunagreind eins og ChatGPT áhugaverða og aðgengilega er að hún vinnur úr almennt orðuðum fyrirmælum og krefst ekki kunnáttu í forritunarmálum eða öðrum tölvuvísindum, þú stýrir ferðinni!

Skilgreining á spjalli

Þegar þú opnar nýjan glugga, til dæmis í ChatGPT, byrjarðu nýtt spjall. Allt sem við setjum inn sem fyrirmæli mótar spjallið og afmarkar verkefnið. Hreint spjall er nýr gluggi sem við höfum ekki sett nein fyrirmæli inn í og má þar segja að við séum með ómótað verkfæri í höndunum og undir okkur notendum komið að fá það til að hlýða okkur.

Tröllamúsin sem GPT-40 nefndi í svari til höfundar pistilsins; dýr sem GPT-40 bjó til að sýndi meira að segja mynd af þegar beðið var um það!

Fyrirmælahönnun (prompt engineering)

Góð fyrirmæli þurfa að vera skýr og nákvæm, þannig að módelinu sé alveg ljóst hvað þú vilt. Slæm fyrirmæli eru óskýr og ómarkviss sem leiðir til ónákvæmra svara. Til að bæta niðurstöður þarf að hugsa vel um uppbyggingu og orðalag fyrirmælanna. Hér eru nokkrir flokkar fyrirmæla með dæmum sem þú getur prófað.

Flokkar fyrirmæla

Fyrirmæli geta verið einföld eða flókin, eftir því hvaða upplýsingar og niðurstöður þú vilt fá. Einföld fyrirmæli eru stutt og hnitmiðuð en flókin fyrirmæli krefjast ítarlegri útskýringa og leiðbeininga. Hér eru nokkur dæmi:

Einföld fyrirmæli:

  • „Segðu mér eitthvað um Ísland“
  • „Af hverju halda Íslendingar upp á 17. júní?“
  • „Útskýrðu hvernig ég get búið til góð fyrirmæli (prompt) og hvernig á að þróa þau frekar ef svarið er ekki nógu nákvæmt“

Flókin fyrirmæli:

  • „Skrifaðu ítarlega ritgerð um aðdraganda og mikilvægustu atburði í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga sem leiddi til fullveldis og síðan sjálfstæðis frá Dönum.“
  • „Gerðu samanburð á áhrifum loftslagsbreytinga á norðurskautinu og Suðurskautslandinu með áherslu á breytingar í hafís og áhrif á lífríki. Bentu mér á hvar ég get fundið heimildir til að staðfesta það sem þú leggur til.“

Upplýsandi fyrirmæli

Þrátt fyrir að spunagreind hafi aðgang að gríðarlegu magni upplýsinga er það ákveðnum takmörkunum háð. Í fyrsta lagi þarf að vita að þjálfun módela gerist ekki í rauntíma, þetta hefur þó þróast og sum módel geta leitað að upplýsingum en þær eru ekki hluti af þjálfun heldur sækir módelið sér sjálft upplýsingar. Í öðru lagi eru sérhæfð málefni sem módelin hafa takmarkaða þekkingu á eða viljum nýta ákveðnar heimildir í því verkefni sem við erum að vinna. Í þannig tilfellum er hægt að upplýsa módelið með því að setja inn heimildir, með því að afrita og líma inn í spjallið þær upplýsingar sem við viljum að módelið notist við.

Þú getur t.d. afritað þennan pistil og sett inn í spjall við GPT og látið eftirfarandi fyrirmæli fylgja með.

Upplýsandi fyrirmæli:

  • „Ég ætla að afrita pistil sem er skrifaður um fyrirmæli eða prompts í notkun spunagreindar. Útskýrðu hann betur fyrir mér.“

Flókin upplýsandi fyrirmæli með afmarkað hlutverk:

  • „Þú ert sérfræðingur í námsgagnagerð, ég er kennari í grunnskóla og kenni 8 – 9 ára börnum. Ég er að búa til verkefni um flugvélar sem verður þema í þrjár vikur, það verða fjórar klukkustundir á viku, samtals 12 klukkustundir. Getur þú hjálpað mér að hanna verkefnin þannig að þau verði áhugaverð og skemmtileg fyrir nemendurna mína?“

Með þessu ert þú að segja módelinu að svara þér eins og það sé sérfræðingur þá verða svörin oft betri og dýpri en ef fyrirmælin væru almennt orðuð.

Samantekt um fyrirmæli

Þetta eru aðeins nokkur dæmi sem geta nýst til að koma spjallinu af stað, síðan þróar maður það með því að bregðast við svörum, leiðrétta misskilning og koma því á þann stað sem maður vildi. Módelin geta líka komið með hugmyndir að nýrri eða öðruvísi nálgun á verkefnið sem manni datt kannski ekki í hug og hugmyndirnar geta stundum verið ansi góðar.

Hér eru nokkrir almennir punktar um fyrirmæli:

  • Notaðu nákvæmt og skýrt orðalag.
  • Afmarkandi fyrirmæli virka oft vel, þá gefur maður módelinu hlutverk, t.d. segir því að það sé sérfræðingur á einhverju sviði og þannig mótar maður viðbrögðin sem maður fær.
  • Veittu nægar upplýsingar svo módelinu sé ljóst hvað þú ert að sækjast eftir.
  • Ekki setja of mörg verkefni fyrir í ein fyrirmæli, skiptu því frekar upp og þróaðu spjallið.
  • Ef þú ert í löngu spjalli, gefðu reglulega fyrirmæli um samantekt á spjallinu hingað til, módelin hafa lélegt minni og þetta tryggir að samhengið haldist.
  • Uppáhalds fyrirmælin mín eru eflaust „útskýrðu skref fyrir skref“, þannig getur maður fengið módelin til að útskýra fyrir sér jafnvel mjög flókin málefni á einfaldan hátt.
  • Aldrei deila viðkvæmum upplýsingum, persónuupplýsingum, leyniorðum eða öðru sem ekki má verða opinbert eða leynt á að fara samkvæmt lögum og reglum.

Ég safna fyrirmælum sem hafa virkað vel, vista þau í sér skjal og aðlaga að mismunandi verkefnum. Þetta eru t.d. kynningar á mér eða lýsingar af langtímaverkefnum sem ég er að brasa við og vil geta notað aftur til að koma spjallinu strax á þann stað sem ég vil byrja á. Ég mæli eindregið með þessu, því stundum tekst manni að leggja eitthvað inn sem bara virkar og síðan þegar maður stendur frammi fyrir svipaðri áskorun getur maður sótt fyrirmælin og aðlagað þau að nýjum áskorunum.

Ég nýti mér þetta samt líka til mun hversdagslegri hluta, t.d. uppskriftin að ljúffengri sósu sem við borðum með fiski í raspi varð til í spjalli við GPT 3.5!

Uppspuni (hallucinations)

Spunagreind er gleymin og ef hún hefur ekki þekkingu á málefninu, býr hún bara til eitthvað svar sem á sér enga stoð í raunveruleikanum. Ef hún væri vasareiknir og gerði 1x1=2 og hætti að kunna að deila, yrði henni umsvifalaust hent eða skilað með skömmum í þá verslun sem seldi hana.

Uppspuni er stór áskorun. Þrátt fyrir að módelin séu þjálfuð á óskiljanlega stórum gagnasöfnum geta þau búið til svör sem eru alveg kolröng og byggjast á handahófskenndum niðurstöðum. Þetta er flókið vandamál því í rauninni gerast hlutir í spunagreindinni sem enginn skilur almennilega. Það er mikilvægt að vera meðvitaður um þetta og alltaf sannreyna svörin með réttmætum heimildum. Fyrir áhugasama er hér frétt af lögmanni í Bandaríkjunum sem lenti heldur betur í vandræðum þegar hann vísaði í mál sem áttu sér enga stoð í raunveruleikanum.

Cautionary Tales of Using AI Chatbots: The Courts Weigh in on AI Hallucinations | Knowledge | Fasken

Dæmi um uppspuna:

Þetta er afritað úr spjalli mínu við GPT-4o þann 16. júní 2024.

Fyrirmæli:

„Hvaða einlendu (endemic) tegundir dýra finnast á Íslandi?“

Svar GPT-4o:

  • Reyndýr (Rangifer tarandus): Þetta er eina villta spendýrið sem fannst á Íslandi við landnám.
  • Refur (Vulpes lagopus): Íslenski refurinn, einnig þekktur sem melrakkinn, er eina upprunalega rándýrið á Íslandi.
  • Mýs (Apodemus sylvaticus): Tröllamúsin, sem er tegund húsamúsa, er upprunaleg á Íslandi.
  • Nokkrar tegundir fugla: Margir fuglar hafa búið á Íslandi í langan tíma og eru sumir taldir innlendir, þar á meðal lundinn (Fratercula arctica) og rjúpan (Lagopus muta).

Þetta svar er alrangt, þessar tegundir flokkast ekki til einlendra á Íslandi og ný tegund, tröllamús, var búin til. Þó að þetta geti verið skemmtilegt og jafnvel fyndið getur uppspuni haft alvarlegar afleiðingar ef notendur gæta sín ekki og sannreyna niðurstöður með réttmætum heimildum.

Samantekt

Markmið pistilsins var að kynna notkunarmöguleika fyrir lesendum og vonandi prófa einhverjir sig áfram. Þetta er allt nýtt og í örri þróun, tæknin verður sífellt aðgengilegri og notkunarmöguleikar fleiri. Með því að ná tökum á grunnfærni í textafyrirmælum getur maður farið að þróa sínar eigin aðferðir og fundið fjölmörg notagildi.

Í næsta pistli mun ég fjalla um fyrirmæli fyrir myndagerð o.fl. Af því tilefni bað ég ChatGPT vinsamlegast að sýna mér hvernig hin goðsagnakennda tröllamús liti út. Útkoman er bara nokkuð krúttleg og einhvern veginn grunar mig að dætur mínar eigi eftir að skapa einhvern söguheim tröllamúsa á næstu dögum og vikum.

Magnús Smári Smárason er lágkóða gagnagrúskari. Pistlar hans um gervigreind birtast vikulega á þriðjudögum á Akureyri.net.

Aðventa

Magnús Smári Smárason skrifar
10. desember 2024 | kl. 16:16

Magnús verkefnastjóri í gervigreind við HA

Skapti Hallgrímsson skrifar
03. desember 2024 | kl. 15:40

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30

Lýðræði á tímum gervigreindar

Magnús Smári Smárason skrifar
30. október 2024 | kl. 11:45

Nokkur heilræði varðandi gervigreind

Magnús Smári Smárason skrifar
01. október 2024 | kl. 09:30

Temjum tæknina III: Uppfærð kortasjá og ný heimasíða

Magnús Smári Smárason skrifar
17. september 2024 | kl. 14:15