Fara í efni
Gamla íþróttamyndin

550 fótboltastrákar á stærsta Goðamótinu

Þessir flottu Þórsarar sögðu blaðamanni stoltir frá því að þeir væru búnir að vinna alla leikina sína þegar myndin var tekin á laugardegi. Mynd: RH

Fjölmargir gestir eru í bænum um helgina, en það er ekki síst vegna þess að fjölmennasta Goðamóti vetrarins lýkur í dag í Boganum. „Það eru í kring um 550 keppendur í 90 liðum, í 6. flokki karla, sem keppa hérna um helgina,“ segir Aðalgeir Axelsson, mótsstjóri. Blaðamaður tók hús á honum og dómarastjóranum Sigurði Kára Ingasyni, þar sem þeir sátu einbeittir í tölvunum sínum í mótsstjórn. 

Mótið sem við erum að halda núna er Goðamót númer 82

„Það er náttúrlega löngu liðin tíð að það sé verið að fylla út í einhver kort með úrslitum, nú er bara allt skipulag mótsins á netinu og dómararnir senda úrslit beint þangað inn í gegnum símana sína,“ segir Aðalgeir, en hann segir að það sé gríðarlega mikil skipulagning sem á sér stað fyrir svona stórt mót. „Það eru fullt af sjálfboðaliðum sem koma að þessu og við gerum þetta öll saman; starfsfólk, þjálfarar, foreldrar og leikmenn.“

 

Sigurður Kári og Aðalgeir, en þeir standa vaktina í mótsstjórn og hafa gert oft áður. Mynd: RH

Mikil innspýting fyrir bæinn og félagið

„Flokkurinn sem keppir um helgina er 6. flokkur karla, en hann hefur yfirleitt verið fjölmennasti flokkurinn,“ segir Aðalgeir. „Eins og á öðrum mótum er bærinn náttúrlega stappaður af fólki og þetta er algjörlega innspýting fyrir bæinn.“ Flest liðin þiggja það að gista í Glerárskóla og Síðuskóla, en þar eru það Þórsforeldrarnir sem standa vaktina og sjá um að þrífa og vera til staðar. 

„Mótið er mjög rótgróið, en það hefur verið haldið árlega síðan 2003, þegar Boginn var opnaður,“ segir Aðalgeir. „Mótið sem við erum að halda núna er Goðamót númer 82 og hefur alltaf verið undir merkjum Goða í samstarfi við Norðlenska. Þessi mót eru gríðarlega mikilvæg fyrir félagið, og það eru allir í félaginu sem njóta góðs af því.“

„Það svo gaman að sjá þetta allt koma heim og saman, sjá hvað krakkarnir skemmta sér vel og hvað það er góð stemning,“ segir Aðalgeir að lokum.


Keppt er á sex völlum í einu og hliðarlínurnar eru þéttskipaðar af áhorfendum og stoltum foreldrum. Mynd: RH