Þór í 16-liða úrslit eftir baráttuleik

Þórsarar tóku á móti ÍR í 32-liða úrslitum bikarkeppni karla í knattspyrnu í dag. Leikurinn fór fram í Boganum og reyndist hin besta skemmtun fyrir áhorfendur. Þórsarar höfðu betur í miklum baráttuleik, unnu Breiðhyltinga 3:1, og verða því í pottinum þegar dregið verður í 16-liða úrslitin.
Það voru þó gestirnir sem byrjuðu betur og strax á annarri mínútu leiksins átti Breki Hólm Baldursson gott skot frá vítateiglínu sem rataði alla leið í markið. 1:0 fyrir ÍR. En Þórsarar létu þetta ekki á sig fá og jöfnuðu leikinn á 6. mínútu. Markvörður ÍR náði ekki að halda boltanum eftir skot úr teignum og Clement Bayiha var fljótur að átta sig og setti boltann inn fyrir línuna af stuttu færi.
Aðdragandi og fyrsta mark Þórs. Atli Þór Sindrason (27) rennir boltanum inn í teiginn vinstra megin á Sigfús Fannar Gunnarsson (37), sem á skot að marki. Vilhelm Þráinn Sigurjónsson, markvörður ÍR, nær að verja boltann, Sigurður Karl Gunnarsson, varnarmaður ÍR (4), skallar hann niður og þar mætir Clement Bayiha við fjærstöngina og potar honum inn. Mynd: Ármann Hinrik.
Þremur mínútum síðar munaði litlu að Juan Guardia næði forystunni fyrir Þór en Vilhelm í marki ÍR varði góðan skalla hans virkilega vel. En á 34. mínútu komust Þórsarar yfir þegar Sigfús Fannar Gunnarsson skoraði af stuttu færi eftir sendingu frá Ibrahima Balde.
Heimamenn voru því með forystu þegar flautað var til leikhlés og hléið reyndar kærkomið tækifæri fyrir leikmenn að kæla sig aðeins niður því töluvert var um pirring og pústra og Stefán dómari þurfti oft að veifa gula spjaldinu – stundum reyndar fyrir litlar sakir, sem jók frekar á pirringinn en hitt. Spjöldunum fjölgaði þó eftir hlé og alls fór það gula 12 sinnum á loft í leiknum – en ekki kom til þess að Stefán teldi ástæðu til að seilast eftir því rauða.
Gestirnir náðu að pressa dálítið á Þórsara í seinni hálfleik, án þess þó að ógna að ráði eða skapa sér einhver almennileg færi. Heimamenn fengu skástu færin í seinni hálfleik og gulltryggðu sigurinn í uppbótartíma, þegar Peter Ingi Helgason skoraði sitt fyrsta mark fyrir Þór með góðu skoti úr teignum eftir flotta sókn Þórsara. Peter Ingi, sem varð 17 ára fyrir stuttu, hafði komið inn á sem varamaður örfáum mínútum fyrr og stimplaði sig heldur betur inn með því að tryggja Þórssigur í þessum baráttuleik.
Skipt inn á í viðbótartíma og skoraði. Hinum 17 ára Peter Inga Helgasyni var skipt inn á 90. mínútu, á sama tíma og báðir markaskorarar Þórs fóru af velli. Um það bil þremur mínútum síðar tryggði hann endanlega sigur Þórs með sínu fyrsta marki í sínum öðrum leik í meistaraflokki eftir sendingu frá Atla Þór Sindrasyni, sem er ári eldri en Peter Ingi. Myndir: Ármann Hinrik.