Fara í efni
Fyrirtækið Heilsuvernd

Spunagreind og menntun - Ný áskorun fyrir íslenska skólakerfið

GERVIGREIND - 7

„Getið þið útskýrt hvernig gervigreind virkar?“ Þessi spurning heyrist eflaust víða í skólastofum landsins. Haustið 2024 markar upphaf skólaárs þar sem ný tækni er ekki lengur fjarlægur möguleiki heldur raunveruleg áskorun sem mun koma til með að móta nám og kennslu.

Áhrif gervigreindar á menntun verða sífellt greinilegri. Á meðan sumir fagna þessari byltingu óttast aðrir að hún muni grafa undan grunngildum menntunar. Spurningin er ekki hvort tæknin muni breyta menntakerfinu, heldur hvernig við stýrum þeirri breytingu.

Með innsýn frá kennurum í framlínunni og sérfræðingum í menntamálum mun ég rýna í þær breytingar sem eru að eiga sér stað og hvernig við getum best undirbúið nemendur, kennara og skólakerfið í heild fyrir þessa nýju öld menntunar.

Er þessi nýja tækni björgunarhringur eða síðasta hálmstráið sem brýtur bakið á úrvinda kerfi?

Svarið er hvorki einfalt né augljóst en eitt er víst, við verðum að mæta þessari áskorun af yfirvegun og hugrekki.

Íslenska skólakerfið stendur nú þegar frammi fyrir fjölþættum áskorunum. Kennaraskortur hefur verið áberandi og fjármögnun skólakerfisins veldur áhyggjum. Takmarkað fjármagn getur haft bein áhrif á gæði kennslu og aðbúnað nemenda. Þá hefur stefnumótun í menntamálum verið harðlega gagnrýnd fyrir seinagang, gæði ákvarðanatöku og skort á framsýni.

Það væri of einfalt að varpa allri ábyrgð á skólakerfið eða kennara. Tökum læsi sem dæmi - það er grunnur að allri annarri menntun. Þó að skólinn gegni lykilhlutverki í lestrarnámi hvílir stór hluti ábyrgðarinnar á herðum foreldra og forráðamanna. Þjálfun í lestri verður að fara fram utan veggja skólans. Foreldrar/forráðamenn sem lesa reglulega fyrir börn sín og með þeim leggja grunninn að ævintýraheimi þekkingar og ímyndunarafls. Með því er einnig lagður grunnur af nauðsynlegum málskilningi og færni í tungumálinu sem er gríðarlega dýrmætt veganesti út í lífið. Þetta er ekki bara mín skoðun heldur er þetta staðfest af fjölmörgum rannsóknum.

Vinsamlegast bíðið þar til uppfærslu er lokið...

Ólíkt tölvukerfum sem hægt er að taka úr sambandi til uppfærslu er ómögulegt að „slökkva“ á menntakerfinu tímabundið til að innleiða breytingar. Þrátt fyrir fjölda skýrslna og greininga virðast raunhæfar lausnir vera fáar. Ég tel eina ástæðu þess vera að skólakerfið er einstaklega lifandi og flókið kerfi. Nemendur mæta í skólann og halda áfram að læra og þroskast á meðan við reynum að bæta kerfið - það er bæði styrkur þess og áskorun.

Nú þegar gervigreind bætist við þessa flóknu mynd er ljóst að við þurfum að endurhugsa nálgun okkar á menntun frá grunni. Við þurfum lausnir sem hægt er að innleiða án þess að trufla daglegt starf skólanna. Lausnir sem eru jafn sveigjanlegar og kerfið krefst.

Ein af spurningunum sem við stöndum frammi fyrir er þessi: Hvernig getum við nýtt nýjustu tækni til að takast á við áskoranir skólakerfisins, styðja við kennara í starfi þeirra og um leið eflt samstarf heimila og skóla? Og hvernig gerum við það án þess að riðla enn frekar því viðkvæma jafnvægi sem ríkir í menntakerfinu? Svarið við þessari spurningu gæti ráðið úrslitum um framtíð gæða íslenskrar menntunar.

Spunagreind í menntun: Tækifæri og áskoranir

Örar tækniframfarir hafa leitt til þess að spunagreind er nú þegar aðgengileg nemendum á flestum skólastigum. Ólíkt hægfara innleiðingu tölva og snjallsíma er þessi þróun að gerast á methraða og að einhverju leyti höfum við takmarkað val hvort við viljum það eða ekki, ef við kjósum að nota snjalltæki á annað borð. Þessi öra þróun býður upp á einstakt tækifæri til að endurhugsa menntun frá grunni og undirbúa nemendur fyrir heim þar sem samvinna manna og gervigreindar verður grundvöllur nýsköpunar og framfara.

Lykilatriðið er að skilgreina spunagreind sem öflugt verkfæri, hvorki sem ógn né töfralausn. Rétt eins og nemendur lærðu að nota vasareikni án þess að glata skilningi á stærðfræði, þurfa þeir nú að læra að nýta spunagreind á ábyrgan og skapandi hátt. Þetta felur í sér að þróa einstaklingsmiðað námsefni, efla gagnrýna hugsun og sköpunargáfu og kenna nemendum að nota tæknina til að dýpka skilning sinn frekar en að reiða sig eingöngu á hana.

Mikilvægi kennara

Í þessu nýja umhverfi verður hlutverk kennara enn mikilvægara. Þeir munu hjálpa nemendum að takast á við flóknari áskoranir, þróa dýpri skilning og beita þekkingu sinni á fjölbreyttan hátt. Kennarar munu leiða nemendur í gegnum ferli þar sem þeir læra að spyrja góðra spurninga, túlka niðurstöður gagnrýnið og nota spunagreind sem samstarfsaðila, hvort sem um ræðir í raungreinum, tungumálum, listgreinum eða öðrum fögum. Nemendur verða að læra að þróa eigin hugmyndir og sköpunargáfu, frekar en að reiða sig um of á gervigreind.

Stafrænt læsi og gervigreindarlæsi eru og munu verða mikilvægur þáttur í grunnfærni. Þetta felur í sér skilning á grundvallaratriðum tölvutækni og gervigreindar, getu til að meta áreiðanleika og færni í að nýta tækni á ábyrgan hátt. Að innleiða slíka kennslu í námskrár á öllum skólastigum er nauðsynlegt skref til að undirbúa nemendur fyrir framtíðina sem að einhverju leyti er núna.

Síðast en ekki síst þarf að gera sérstakar ráðstafanir til að tryggja stafrænan jöfnuð - að allir nemendur óháð upprunalandi, bakgrunni eða búsetu hafi jöfn tækifæri til að nýta sér þessa nýju tækni og öðlast nauðsynlegt stafrænt læsi.

Lokaorð

Nú þegar skólaveturinn er að hefjast með öllu sem honum fylgir, eru margir nemendur spenntir og áhugasamir fyrir komandi ári. Á sama tíma kvíða aðrir fyrir því sem koma skal, sérstaklega þeir sem hafa ekki fundið sig í hefðbundnu skólakerfi. Menntun stendur á þröskuldi nýs tímabils þar sem gervigreind getur nú leyst flest hefðbundin verkefni sem við setjum fyrir nemendur.

Ég er sannfærður um að þessi tækni getur hjálpað báðum hópum, þeim áhugasömu og þeim sem eiga erfiðara með nám. Áskorunin er ekki lengur að kenna nemendum að leysa stöðluð verkefni heldur að þjálfa þá í að skapa verkefni sem eru þess virði að vera leyst - verkefni sem krefjast mannlegrar innsýnar, dómgreindar og skapandi hugsunar. Í þessum nýja veruleika verður hlutverk kennara og menntastofnana enn mikilvægara en um leið gjörbreytt.

Við þurfum að undirbúa nemendur fyrir heim þar sem mikilvægasta færnin er ekki að vita svörin heldur að spyrja réttu spurninganna. Heim þar sem getan til að greina flókin vandamál, setja þau í samhengi og finna nýstárlegar lausnir verður verðmætari en nokkru sinni fyrr.

Spunagreind er ekki ógn við menntun - hún er tækifæri til að endurheimta kjarna menntunar: að rækta hugvit, forvitni og sköpunarkraft mannshugans.

Í heimi þar sem vélar geta framkvæmt flest verkefni, verður okkar mikilvægasta áskorun að vera mannleg - að skapa, að skilja, að finna tilgang.

Framtíð íslenskrar menntunar og þar með íslensks samfélags, veltur á því hvernig við tökumst á við þessa áskorun. Munum við halda fast í gamlar hugmyndir um menntun eða munum við hafa hugrekki og þrek til mæta nýjum tímum.

Í næsta pistli sem kemur eftir tvær vikur ætla ég að einblína á hagnýtar leiðbeiningar um hvernig námsmenn, foreldrar og forráðamenn geta nýtt spunagreind og varpa ljósi á þau fjölmörgu tækifæri sem hægt er að nýta. Þetta þarf ekki að vera flókið.

Magnús Smári Smárason er leiðsögumaður um gervigreind