Opnað fyrir umsóknir frumkvöðla í Slipptöku

Drift EA hefur opnað fyrir það sem kallað er Slipptaka, en í því felast fjórar vinnustofur fyrir frumkvöðla og teymi með hugmyndir sem tilbúnar eru á næsta stig. Opið er fyrir umsóknir til 26. maí, en vinnustofurnar fara fram á Akureyri 11.-26. júní.
Slipptakan endar á formlegri kynningu verkefna þar sem valin verkefni komast áfram í Hlunninn. „Við erum sérstaklega að leita að fólki með hugmyndir sem er tilbúið að helga sig verkefninu með krafti og tíma,“ segir Sesselja Ingibjörg Barðdal, framkvæmdastýra Driftar EA.
Í tilkynningu Driftar EA kemur fram að Slipptakan bjóði þátttakendum upp á markvissa mótun og þróun viðskiptahugmynda, persónulega leiðsögn sérfræðinga, þjálfun í framkomu og kynningum ásamt aðgangi að öflugu frumkvöðlasamfélagi. Valdar hugmyndir komast svo áfram í Hlunninn, ársprógramm Driftar EA þar sem frumkvöðlarnir fá aðstöðu, fjármögnun og ráðgjöf til að þróa hugmyndina áfram og komast á fulla siglingu.
Áhugaverð og spennandi verkefni fóru áfram í fyrra
Fjórtán fyrirtæki tóku þátt í Slipptökunni í fyrra og fóru sex þeirra áfram í framhaldsvinnslu í Hlunninum. Akureyri.net hefur á undanförnum vikum fjallað um og kynnt þau verkefni sem þar eru í vinnslu. Þar á meðal voru sprotafyrirtækin Quality Console, sem þróar stafrænt gæðaeftirlitskerfi fyrir matvælaiðnað, Sea Thru, sem vinnur að rekjanleikakerfi fyrir sjávarafurðir og Grænafl, sem vinnur að orkuskiptum í strandveiðiflotanum.
Drift EA tók einnig undir sinn verndarvæng þrjú samfélagsverkefni með skýr markmið um að styrkja lífsgæði og atvinnulíf á Norðurlandi: Komplíment markaðs- og ráðgjafarstofu, Íbúðir út lífið og Icelandic with Bryndís. Þessi verkefni sýna þann kraft og fjölbreytileika sem býr í teymum og hugmyndum á svæðinu.
Gaf dýrmæt verkefni fyrir frumkvöðlastarfið
Einn þeirra frumkvöðla sem tóku þátt í fyrra og fór áfram í Hlunninn með sitt verkefni, Kolbeinn Óttarsson Proppé, segir verkefnið hafa gefið dýrmæt verkfæri fyrir framhaldið. „Slipptakan var virkilega vel heppnuð og gaf okkur dýrmæt verkfæri fyrir frumkvöðlastarfið. Það myndaðist einstakt samfélag þátttakenda sem einkenndist af samkennd og drifkrafti. Sú reynsla sem Slipptakan gaf mun nýtast verkefninu okkar vel – sérstaklega við að fínpússa viðskiptahliðina,“ segir Kolbeinn, en hann er framkvæmdastjóri Grænafls.
Kolbeinn Óttarsson Proppé, framkvæmdastjóri Grænafls, segir Slipptökuna í fyrra hafa verið virkilega vel heppnaða. Sesselja Ingibjörg Barðdal, framkvæmdastýra Driftar EA segir mikinn styrk í því að blanda saman hugmyndum úr ólíkum áttum.
„Við sjáum mikinn styrk í því að blanda saman hugmyndum úr ólíkum áttum – hvort sem um er að ræða tækni, samfélagsverkefni eða sprotafyrirtæki. Markmiðið með Slipptökunni og Hlunninum er að skapa jarðveg þar sem frumkvöðlar geta vaxið og hugmyndir blómstrað,“ segir Sesselja Ingibjörg Barðdal, framkvæmdastýra Driftar EA.
Sótt er um á vefsíðu Driftar EA, www.driftea.is.
- Drift EA er miðstöð frumkvöðla og nýsköpunar staðsett í hjarta Akureyrar við Ráðhústorg og byggir á sænskri fyrirmynd sem hefur vakið athygli fyrir árangursríkt stuðningsumhverfi fyrir sprotafyrirtæki og samfélagsverkefni. Fyrir ári síðan gerði Drift EA samstarfssamning við átta ráðgjafafyrirtæki og sérfræðinga með fjölbreytta sérfræðiþekkingu, þar á meðal Eflu, COWI, Deloitte, Enor, Geimstofuna og KPMG. Þessir ráðgjafar eru kallaðir „Driftarar“ og munu þeir ásamt þjálfurum veita teymunum markvissa ráðgjöf á lykilsviðum eins og fjármögnun, stefnumótun, hönnun, tæknilausnum og viðskiptalegri greiningu. Háskólinn á Akureyri er einnig virkur þátttakandi með nýráðinn verkefnastjóra í frumkvöðla- og nýsköpunarmálum.