Fyrirtækið Heilsuvernd
Íslandsklukkan glumdi 24 sinnum
30.08.2024 kl. 17:00
Gerður Björk Sigurðardóttir, nýnemi í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri, hringir Íslandsklukkunni í morgun. Mynd: Skapti Hallgrímsson
Íslandsklukkunni, hinu fallega listaverki Kristins E. Hrafnssonar á lóð Háskólans á Akureyri, var hringt fyrir hádegi í dag og markaði athöfnin upphaf skólaársins. Klukkan glumdi 24 sinnum, einu sinni fyrir hvert ár aldarinnar.
Það var Gerður Björk Sigurðardóttir, nýnemi í hjúkrunarfræði, sem fékk það hlutverk að hringja klukkunni, eftir að dr. Áslaug Ásgeirsdóttir , nýr rektor háskólans, ávarpaði viðstadda stuttlega. Áslaug tók við embætti 1. júlí í sumar og var þetta hennar fyrsta opinbera ávarp í starfi.
Dr. Áslaug Ásgeirsdóttir ávarpaði viðstadda í morgun. Hún tók við embætti rektors Háskólans á Akureyri 1. júlí. Mynd: Skapti Hallgrímsson
_ _ _
- Íslandsklukka, verk Kristins E. Hrafnssonar, myndlistarmanns, var gerð til minningar um 1000 ára kristnitökuafmæli, landafundi í Vesturheimi og sögu þjóðarinnar í stóru og smáu. Akureyrarbær efndi til samkeppni um útilistaverk árið 1999, samkeppnin var öllum opin og bárust 62 tillögur. Akureyrarbær afhenti Háskólanum á Akureyri útilistaverkið til afnota árið 2001.