Fara í efni
Fyrirtækið Heilsuvernd

Handboltaskóli Árna 13. árið í röð í Þýskalandi

Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon, landsliðsmenn hjá Magdeburg, ásamt strákum sem sóttu handboltaskólann síðasta sumar.

Akureyringurinn Árni Jakob Stefánsson, sá gamalkunni íþróttakappi, stendur fyrir handboltaskóla í Þýskalandi fyrir íslenska krakka á sumri komanda. Það verður 13. árið í röð sem Árni býður upp á þennan möguleika.

Um er að ræða æfingabúðir í eina viku þar sem krakkarnir búa í íþróttamiðstöð í bænum Haldensleben, skammt fyrir utan Magdeburg og æfa handknattleik við toppaðstæður.

Þessi vikulangi handboltaskóli Árna var í Kiel fyrstu 10 skiptin. Þar þjálfaði Alfreð Gíslason vinur Árna lið THW Kiel í árafjöld við frábæran orðstír eins og mörgum er kunnugt. „Ég byrjaði með skólann 2013, Alli gaf okkur leyfi til að koma og horfa á æfingu og spjallaði við hópinn eftir æfinguna. Skólinn var í Kiel fram til ársins 2022 og síðan höfum við farið tvisvar til Magdeburg,“ segir Árni.

Vinirnir Árni Stefánsson og Alfreð Gíslason þegar skólinn var í Kiel á sínum tíma. Þar þjálfaði Alfreð um árabil með frábærum árangri.

Tvær handboltaæfingar eru á hverjum degi auk þess sem farið í fjölmarga aðra þætti sem tengjast handboltanum, styrktaræfingar, liðleikaæfingar og æfingar til að minnka líkur á meiðslum.

Handboltaskólinn er fyrir íslenska krakka, stráka og stelpur, á aldrinum 13-16 ára. Ferðin næsta sumar verður 22. – 29. júlí og kostar um 235.000 krónur. Allt er innifalið að sögn Árna; flug, gisting, fullt fæði, rútuferðir, tvær æfingar á dag, fyrirlestrar, videofundir, bolur merktur skólanum  og fleira.

Einstaklingsmiðuð þjálfun

Íslenskir þjálfarar við skólann verða Árni sjálfur, sem er nú þjálfari hjá FH, Stefán Árnason þjálfari hjá Aftureldingu, Vilhjálmur Halldórsson, yfirþjálfari hjá Stjörnunni, Andri Snær Stefánsson þjálfari hjá KA, Jóhann Ingi Guðmundsson unglingaþjálfari og markmannsþjálfari hjá Haukum og Örn Þrastarson þjálfari hjá Selfossi. Fleiri gætu enn bæst í hópinn, að sögn Árna.

Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon, landsliðsmenn hjá Magdeburg, ásamt stelpum sem sóttu handboltaskólann síðasta sumar.

„Áhersla er lögð á að bæta tækni krakkanna, auka leikskilning og samvinnu við aðra leikmenn,“ segir Árni. „Æfingarnar eru einstaklingsmiðaðar og einnig er lagt mikið upp úr liðsheildinni. Þetta er drauma umhverfi fyrir unga handboltamenn sem vilja ná langt.“

Árni segir að í skólanum sé mikil áhersla lögð á markmannsþjálfun. „Við erum með markmannsþjálfara sem sér alfarið um markmennina. Á hverri æfingu er sérstakur tími fyrir þá, þar sem farið er í grunnæfingar og tæknina, svo eitthvað sé nefnt. Undanfarin ár hefur verið gífurlega gaman að fylgjast með markmönnunum í skólanum okkar, því á einungis einni viku hafa þeir náð að bæta sig mikið og auka mikið við tækni í markinu.“

Á hverjum degi verða fyrirlestrar þar sem krakkarnir eru fræddir um ýmsa hluti sem skipta máli fyrir þá sem vilja ná langt í handbolta, eins og Árni orðar það, „svo sem heilbrigt líferni, næringu, hugarfar, markmiðssetningu og fleira. Þá verða videofundir þar sem verður farið í leikfræði og horft á myndir frá leikjum með meðal annars með SC Magdeburg og íslenska landsliðinu.“

Meðan á skólanum stendur er farin hálfs dags ferð til Magdeburg. „Hópnum er boðið að koma og horfa á æfingu hjá stórliði SC Magdeburg, þar sem verða þrír íslenskir leikmenn á næsta keppnistímabili, Gísli Þorgeir Kristjánsson, Ómar Ingi Magnússon og Elvar Örn Jónsson,“ segir Árni.

„Krakkarnir fá að fylgjast með hvernig þeir bestu í heiminum æfa og hvað þeir þurfa að leggja á sig til að skara fram úr. Þetta er gott tækifæri fyrir krakkana til að fá innsýn í líf atvinnumanns í handbolta og sjá hvernig hlutirnir eru gerðir hjá bestu liðum heims. Krakkarnir fá að hitta leikmennina, fá að láta taka myndir af sér með þeim og fá hjá þeim eiginhandaráritanir.“

Alls hafa um 700 krakkar af öllu landinu verið í skólanum til þessa; frá Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ, Mosfellsbæ, Seltjarnarnesi, Akureyri, Selfossi, Vestmannaeyjum, Húsavík, Ísafirði og Keflavík auk krakka sem hafa komið frá Noregi, Danmörku, Svíþjóð og Belgíu.

  • Allar nánari upplýsingar gefur Árni Stefánsson. Sími Árna er 8627576 og netfangið arnistef@simnet.is

Gísli Þorgeir Kristjánsson, Árni Jakob Stefánsson og Ómar Ingi Magnússon.