Fara í efni
Fyrirtækið Heilsuvernd

Einn óvenjulegasti gripur Minjasafnsins

SÖFNIN OKKAR – XXVIII

Frá Minjasafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Einn óvenjulegasti gripur Minjasafnsins á Akureyri er afar stór göngufáni (250 x 110 cm) sem karlakórinn Hekla átti og notaði fyrr á árum áður en hann var gefinn safninu.

Magnús Einarsson (1848-1934), organisti, lagði grunn að öflugu tónlistarlífi á Akureyri í lok 19. aldar og byrjun þeirrar tuttugustu. Magnús var fyrsti atvinnutónlistarmaður bæjarins. Hann var ekki einhamur maður en auk þess að vera tónlistarstjóri Akureyrarkirkju stofnaði hann hornaflokk og nokkra kóra t.d. Söngflokk Akureyrarbúa, Gígjuna og Heklu. Síðastnefndi kórinn var jafn stórhuga og kórstjórinn og réðist í mikla söngför til Noregs árið 1905. Nokkuð sem enginn íslenskur kór hafði gert.

Fáninn forkunnarfagri, með nafni söngflokksins áletruðu á silki með mynd af fálka, sem situr á kletti og horfir út yfir hafið. Á bakhliðinni, þeirri rauðu, er kveðja frá íbúum Haugasunds. Fánanum fylgdi ávarp undirritað af fjölda manns. „Vottaði þessi gjöf viðurkenningu á frammistöðu flokksins og vinarþeli til lands og þjóðar.“

Það var þó ekki blásið í lúðra og tilkynnt formlega um að kórinn skyldi halda utan. Þvert á móti var öllu haldið leyndu eins og kostur var.

Snorri Sigfússon, skólastjóri og námsstjóri frá Brekku í Svarfaðardal, var einn Heklunga og sagði frá umræddri utanför í fyrsta bindi æviminninga sinna, sem hann nefndi Ferðin frá Brekku. „Komum við allir saman og var mikill hugur í liðinu. Flaug nú vitneskjan um förina eins og eldur í sinu um bæ og hérað, og þótti mörgum mikið í ráðizt og voru sumir undrandi yfir þessu tiltæki, sem líklega engum hefði áður dottið í hug eða vogað sér að framkvæma. Vantreystu sumir flokknum og töldu þetta flan eitt, sem gæti endað með smán. Var sagt að sumir viltu láta ráðherrann banna förina!“

Það var hins vegar ekki aftur snúið hvað sem hver segði. Magnús hélt utan sumarið 1904 til að kanna aðstæður og skipuleggja tónleikaröðina. Um haustið hófust svo æfingar sem voru stundaðar af kappi, raddæfingar heima hjá Magnúsi, en samæfingar hér og þar sem húsrými og aðrar aðstæður leyfðu. Þeir sem voru ekki búsettir á Akureyri leigðu sér húsnæði og fæði í bænum í æfingatörnum.

Magnús Einarsson - Magnús organisti

„Þennan vetur [1904-1905] söng Hekla oft opinberlega á Akureyri, og mun oftast hafa verið sungið í stóra salnum á Hótel Akureyri, en einnig alloft í salnum á Hótel Oddeyri. Voru þessar „konsertar“ Heklu jafnan vel sóttir og einstöku sinnum var dansað á eftir…“ segir Snorri í bók sinni.

Mikill metnaður var í kórnum að vera landi og bæjarfélagi til sóma. Saumuð voru föt á allan hópinn, dökk jakkaföt og skyggnishúfur með hvítum kolli og blárri gjörð sem í var saumuð harpa yfir miðju skyggninu, en sitthvoru megin við hana: ísl. – kór. Söngskrár voru prentaðar með metnaðarfullri dagskrá með 12 lögum eftir íslenska höfunda. Einnig voru æfð lög eftir erlenda höfunda, einkum norska, svo sem Kjerulf og Grieg.

Það var ekki alveg að ástæðulausu að fyrirhuguð för orkaði tvímælis hjá mörgum. Það var ekki áhættulaust að bregða sér milli landa og alls ekki ódýrt. Söngvararnir þurftu að slá lán fyrir ferðalaginu og líftryggja sig. Já og svo gengu allir í góðtemplararegluna.

Þrátt fyrir efasemdir í upphafi fór að myndast eftirvænting og spenna á Akureyri fyrir utanför Heklu. Kórinn söng fyrir troðfullu húsi á hverjum tónleikum á fætur öðrum á Akureyri, „enda fóru bæjarbúar að líta þannig á, fleiri og fleiri, að vera kynni að Hekla yrði bænum til sóma, því að þeir sáu og fundu að flokkurinn tók alvarlega á æfingunum, og er allur hópurinn gekk í bindindisfélag, þótti sýnt, að hann ætlaði ekki að láta Bakkus trufla sig.“ segir Snorri.

Í lok október var svo loks lagt af stað á „Kong Inge“, sem var nýlegt en ekki stórt skip sem sigldi milli Íslands, Noregs og Danmerkur. Þegar lagt var frá hafnarbryggjunni framan við Höefnershúsin í Innbænum var þar saman kominn fjöldi fólks til að kveðja flokkinn, „við stilltum okkur upp á brú og bátadekki og sungum: Nú er ferðbúið fley, fljótt af stað, o.s.frv. meðan skipið sigldi út á Pollinn.“

Á öllum viðkomustöðum „Kong Inge“, Húsavík, Seyðisfirði, Fáskrúðsfirði og Eskifirði var alstaðar sungið fyrir fullu húsi. Loks var haldið yfir hafið til Bergen og vakti koma sönghópsins mikla athygli og var sagt frá í dagblöðum.

Haldnir voru fernir vel sóttir tónleikar í Bergen. Þá var haldið til Voss og sungið þar einu sinni, og síðan til Stavangurs og Haugasunds, og sungið þar þrisvar á hverjum stað við ágæta aðsókn og undirtektir. Mesta spennan var þó að bíða dóma blaðanna um sönginn.

Söngskrá Heklu í Noregsferðinni árið 1905.

„En eftir fyrsta samsönginn í Bergen byrjaði eitt blaðið þannig söngdóm sinn: „Det var med spenningi og inkje utan otta at me venta paa fyrsta konserten deira, men mann turva inkje en höyra de fyrste strofarne saa var den sorgen slökt.“

Þeir áttu, sem sagt, ekki von á miklu og voru hálf-kvíðnir, en sá kvíði hvarf, er þeir höfðu heyrt fyrsta lagið. Dómar blaðanna um sönginn voru á eina lund. Þeim þótti kórinn góður, gott samræmi milli radda og dáðu raddstyrk hins fámenna flokks. En í þrem efstu röddunum voru 5 menn í hverri, en 6 í öðrum bassa, alls 21 söngmaður í kórnum.

Óslóarblöðin væntu þess að söngflokkurinn kæmi og syngi í borginni en af því varð ekki þar sem ekki hafði ekki verið gert ráð fyrir Óslóarför og allar ferðir landa á milli mjög strjálar og óhentugar þegar komið var fram í desember. Stefnan var því tekin heim til Akureyrar 6. desember með litlu eimskipi, sem hét Egill, í þeirri von að ná til Akureyrar fyrir jól.

Þegar komið var að kveðjustund bauð borgarstjórnin í Haugasundi Heklungum til veislu þar sem því var heitið að kórnum myndi berast gjöf til minningar um þessa fyrstu söngför frá Íslandi. Gjöfin barst sumarið eftir. Forkunnar fagur fáni með nafni söngflokksins áletruðu á silki með mynd af fálka, sem situr á kletti og horfir út yfir hafið. Á bakhliðinni er kveðja frá íbúum Haugasunds. Fánanum fylgdi ávarp undirritað af fjölda manns. „Vottaði þessi gjöf viðurkenningu á frammistöðu flokksins og vinarþeli til lands og þjóðar.“

Eimskipið Egill kastaði akkerum á Akureyrarhöfn rétt fyrir jól laskaður vegna klaka og skemmda. Í grárri morgunskímunni fylkti Hekla liði upp á þilfar og söng vísu Jóns Ólafssonar: „Guð minn þökk sé þér, þú að fylgdir mér aftur hingað heim, hér vil ég þreyja … Og er ómur söngsins barst upp í bæinn, vissu menn að Hekla var komin heim, og þóttust menn hana úr helju heimt hafa, en ekkert hafði af flokknum frétzt síðan hann fór, þannig var einangrun lands og lýðs fyrir 60 árum,“ segir Snorri í bók sinni.

Frækin för var að baki. Og svo voru það fjármálin. Ekki hafði Hekla grætt fé á þessari för. Úthaldið allt reyndist ærið kostnaðarsamt og kom flokkurinn heim með talsverða skuld á baki sem félagarnir urðu að taka á sig og skipta á milli sín, 200 krónur á mann, sem var dágóð upphæð á þeim tíma nokkurra mánaða kaup. „Og alla tíð höfum við verið minnugir þess og stoltir af því að hafa farið þessa skemmtilegu og ógleymanlegu för, og stutt þar með ágætan söngstjóra í merkilegu brautryðjendastarfi.“
_ _ _

ÞEIR SUNGU Í NOREGSFERÐINNI
Heklungar sem tóku þátt í Noregsferðinni voru 21 að tölu og skiptust þannig í raddir: Fyrsta tenór sungu Snorri Snorrason, Hallgrímur Kristjánsson, Tryggvi Jónasson, allir frá Akureyri, Jón Kristjánsson frá Glæsibæ og Snorri Sigfússon frá Tjörn í Svarfaðardal. Annan tenór sungu Þorsteinn og Jón Þórarinssynir, Benedikt Jónsson, Helgi Ísaksson og Guðmundur Kristjánsson, allir frá Akureyri. Fyrsta bassa sungu Kristján Sigurðsson frá Dagverðareyri, Árni Jónsson frá Hjalteyri, Magnús Helgason, Frímann Frímannsson og Pétur Jónasson frá Akureyri og annan bassa sungu Páll Ásgrímsson, Jón Steingrímsson, Páll Jónatansson, Ásgeir Ingimundarson, Jónas Þórarinsson, allir frá Akureyri og Oddur Kristjánsson frá Glæsibæ. „Margir söngmannanna voru ungir að árum og nokkrir þeirra gagnfræðingar frá Möðruvöllum,“ segir í bók Ásgeirs Kristjánssonar um Magnús organista.