Fara í efni
Fyrirtækið Heilsuvernd

Backpackers tekur við rekstri Flugkaffis

Siguróli Kristjánsson, 'Moli', og Hjördís Þórhallsdóttir. Mynd: RH

Nýir rekstraraðilar hafa tekið við Flugkaffi, bæði veitingasölu í innanlands- og utanlandsflugi á Akureyrarflugvelli. Það eru eigendur Backpackers í Göngugötunni sem hafa tekið af skarið og ætla að sjá um þyrsta og svanga gesti flugstöðvarinnar framvegis. Siguróli Kristjánsson, gjarnan kallaður Moli, er einn af eigendum Backpackers. 

„Akureyri Backpackers voru að taka við Flugkaffi, og við erum búin að sjá um veitingarnar hérna síðan 19. febrúar, til reynslu,“ segir Moli. Hjördís Þórhallsdóttir, umdæmisstjóri Isavia á Norðurlandi, hafði samband við Mola og hina eigendurna á Backpackers, þegar hún var að leita að nýjum rekstraraðilum. „Ég var farin að hafa áhyggjur af því að við yrðum veitingasölulaus, og það er mjög ánægjulegt að vera búin að gera þennan samning við eigendur Backpackers“, segir Hjördís.

Reikna með að bæta einhverju við

Eins og er hafa nýir rekstraraðilar ekki breytt miklu, en það er búið að bæta í úrvalið af drykkjarföngum og einnig eru til sölu samlokur og vefjur frá Mat og mörk, sem ekki voru áður. „Við reiknum með að bæta einhverju við, það er allt í skoðun, segir Moli. Við erum með smurt og kökur núna, gulrótarkökuna og súkkulaðikökuna sem við seljum á Backpackers við mikinn fögnuð.“ Veitingasalan er opin þegar flug eru á dagskrá, en lokað þess á milli.  

 

Veitingasalan í brottfararsal millilandaflugsins. Moli segir að það sé búið að bæta við úrval drykkja. Mynd: RH

Moli segir að það sé ekki endilega á döfinni að breyta nafninu eitthvað, þó að merki Backpackers myndi kannski fá að vera einhversstaðar. „Ég er ánægður með nafnið á barnum í millilandaflugstöðinni, en við erum að taka við af honum Steina, Steingrími Magnússyni, og hann skírði barinn 'Jæja', sem er flott nafn. Rímar ágætlega við barinn í Leifsstöð sem heitir 'Loksins'.“

Örar skiptingar í brúnni síðan 2023 en pönnsurnar lifa

Flugkaffi var rekið í tuttugu ár af Baldvini H. Sigurðssyni, en hann afhenti reksturinn til 'Lello', Raffaele Marino árið 2023. Lello stoppaði ekki lengi við og Steingrímur Magnússon tók við rekstrinum sumarið 2024. Flugkaffi hafði verið þekkt fyrir stórkostlegar pönnukökur, sem Baldvin átti heiðurinn að, en það hefur ætíð komið fram í fréttaflutningi af nýjum rekstraraðilum, að pönnukökuuppskriftin hafi fylgt með. Moli tekur það sérstaklega fram við blaðamann Akureyri.net, að uppskriftin sé á öruggum stað og verði áfram í heiðri höfð á Flugkaffi. 

Fyrri fréttir Akureyri.net af rekstraraðilum Flugkaffi hingað til: 

 

Skapti Hallgrímsson tók þessa stórmerkilegu mynd, en þetta eru síðustu pönnukökurnar sem Baldvin bauð upp á í Flugkaffi.