Fara í efni
Frjálsíþróttir

Vélstjórnarnemar í VMA komust í feitt

Nemendur í vélstjórn við Verkmenntaskólann á Akureyri ásamt kennurum. Frystitogarinn Snæfell EA í baksýn. Mynd af vef Samherja.

Nemendum í vélstjórn við Verkmenntaskólann á Akureyri gafst nýverið kostur á að fylgjast með endurbótum á sveifarási frystitogarans Snæfells EA, sem er í eigu Samherja. Um er að ræða sérhæft verkefni, sem krefst mikillar nákvæmni og voru erlendir sérfræðingar fengnir til landsins í tengslum við vélarupptekt og slípun á sveifarási.

Fjallað er um málið á vef Samherja þar sem fram kemur að þessar vikurnar sé verið að heilmála Snæfellið í Slippnum, auk þess sem unnið er að ýmsum uppfærslum og endurbótum.

Bjarni Pétursson sviðsstjóri skipaþjónustu Slippsins segir að ákveðið hafi verið að fá til landsins sérfræðinga hjá Metalock í Þýskalandi til að slípa sveifarásinn. Yfirumsjón með vélarupptekt hafði Zeppelin Danmark Power Systems, sem er umboðsaðili fyrir MAK og Caterpillar vélar.

Vilhjálmur G. Kristjánsson kennari í vélstjórn við VMA.

Þáðu boðið samstundis

„Viðurkenndir sérfræðingar í að slípa sveifarása eru tiltölulega fáir í heiminum og því var nauðsynlegt að fá þessa erlendu sérfræðinga til Akureyrar í tengslum við þetta verkefni,“ segir Bjarni Pétursson hjá Slippnum Akureyri. 

Hjörvar Kristjánsson skipaverkfræðingur hjá Samherja segir afar mikilvægt að vélstjórabrautin sé sem öflugust, brautin styrki svæðið sem þekkingarsetur í haftengdri starfsemi. Það var hann sem nefndi við Bjarna að gagnlegt gæti verið að bjóða nemendum í vélstjórn við Verkmennaskólann á verkstæði Slippsins til að fylgjast með þegar sveitarásinn yrði slípaður. 

„Við stukkum strax á þessa góðu hugmynd og skemmst er frá því að segja að skólinn og nemendurnir þáðu boðið samstundis. Allir ferlar voru útskýrðir mjög vel fyrir nemendunum, sem fengu að mínu viti kærkomið tækifæri til að kynnast öllum þáttum slíks verkefnis,“ segir Bjarni.

Rune Pettersen hjá Zeppelin Danmark útskýrir alla ferla.

Vilhjálmur G. Kristjánsson kennari í vélstjórn við Verkmenntaskólann á Akureyri segir að þarna hafi nemendum boðist kærkomið tækifæri til að kynna sér vinnu fagmanna í viðhaldi skipavéla. Þessu tilboði Slippsins og Samherja hafi í raun ekki verið hægt að hafna.

„Þessi tvö fyrirtæki, Slippurinn Akureyri og Samherji, hafa verið okkur afar hliðholl í gegnum tíðina og við höfum alltaf getað treyst á stuðning þeirra, enda mikils virði fyrir skólann að hafa góðan aðgang að skipum og fyrirtækjum sem þjónusta skipaflotann með ýmsum hætti,“ segir Vilhjálmur í greininni á vef Samherja. „Slippurinn og Samherji eru með öðrum orðum öflugir bakhjarlar skólans. Nemendurnir eru án efa reynslunni ríkari, enda voru þeir áhugasamir og spurðu margs. Fyrir mig persónulega var þetta skemmtilegt og gefandi, þar sem ég var vélstjóri á þessu skipi í töluverðan tíma.“