Pétur Friðrik stórbætti Íslandsmetið í 80m
Pétur Friðrik Jónsson, 16 ára frjálsíþróttamaður í UFA bætti Íslandsmetið í 80 m hlaupi utanhúss í fullorðinsflokki á RUB23 mótinu á Akureyri í gær. Íslandsmetið, þangað til í gærkvöldi, hafði verið í vörslu Óla Tómasar Freyssonar úr FH, síðan 2006. Met Óla Tómasar var 9,30 sek. Pétur gerði sér lítið fyrir í blíðunni á Þórsvellinum í gær og hljóp á 9,23 sekúndum og bætti metið því um 7 sekúndubrot.
„Ég sá að það væri möguleiki á að ég myndi geta náð þessu meti,“ segir Pétur Friðrik við blaðamann Akureyri.net. „Það kom mér samt eiginlega á óvart hvað tíminn var góður, miðað við hlaupið. Ég hugsa að ég gæti klárlega bætt það frekar, á góðum degi.“
Ari Heiðmann Jósavinsson er yfirþjálfari meistaraflokks UFA, en hann var að vonum ánægður með árangur Péturs í gær. „Völlurinn og allar aðstæður voru náttúrulega frábærar, Pétur nýtur góðs stuðnings frá foreldrum, UFA og þjálfurum sínum. Sérstaklega vil ég nefna Þráin [Kristin Þráin Kristjánsson], en meiðslalaus styrktarþjálfun er gríðarlega mikilvæg hérna.“
Pétur Friðrik með yfirþjálfara meistaraflokks UFA, Ara Heiðmanni. Mynd: Þórey Kristín Aðalsteinsdóttir
Pétur Friðrik er 16 ára sem fyrr segir, en það þýðir að metið sem hann bætti í gærkvöldi stendur í aldursflokki hans, 16-17 ára, og uppúr. Pétur segist stefna á Íslandsmeistaratitla næstu árin, en stóra markmiðið sé EM í frjálsum fyrir 20 ára og yngri næsta sumar. „Ég var líka að stökkva, aðallega langstökk, en núna hef ég alveg snúið mér að hlaupunum,“ segir Pétur.
Það er þétt dagskrá í sumar hjá þessum unga frjálsíþróttamanni sem kláraði fyrsta bekk Menntaskólans á Akureyri í vor. „Ég fer á Meistaramót Íslands fyrir 15-22 ára um aðra helgi, Meistaramót fullorðinna helgina eftir það og svo eru Gautaborgarleikarnir helgina eftir það,“ segir Pétur. „Ég er í góðu standi, heill og til í þetta allt saman,“ segir hann að lokum.
Pétur fagnar meti sínu. Með honum á myndinni er faðir hans, Jón Friðrik Benónýsson (Brói), sem er reynslumikill frjálsíþróttaþjálfari og styður þétt við bakið á syni sínum. Mynd: Einar Magnús Einarsson