Fara í efni
Frjálsíþróttir

Mikið fjör í Boganum á Grunnskólamóti UFA

Fjölmenni í Boganum á Grunnskólamóti UFA fyrr í mánuðinum. Myndir: UFA

Mikill atgangur var í Boganum nokkra morgna fyrr í mánuðinum þegar UFA hélt Grunnskólamótið í frjálsum íþróttum. Um 1.100 nemendum í 4.-7. bekk grunnskóla Akureyrarbæjar var boðið að keppa í frjálsum íþróttum, en auk þeirra bættist Þelamerkurskóli í hópinn einn daginn. 

UFA birtir frásögn og myndir frá mótinu á vef sínum, þar sem segir meðal annars: Keppt var í spretthlaupi, hringhlaupi, langstökki, boðhlaupi og reipitogi. Mikið kapp var í krökkunum, allir stóðu sig mjög vel, bæði í keppni og í stuðningsmannaliðum, og vonandi höfðu sem flestir gaman af. Bæði var um að ræða einstaklingskeppni og keppni milli skóla í hverjum árgangi. Efstu 10 krökkum í hverri grein er boðið að æfa frítt með UFA út júní og fengu þeir afhent sérstakt viðurkenningarskjal. Keppni milli skólanna var hörð og í einhverjum tilfellum réðust úrslit um stigahæsta skólann ekki fyrr en í síðustu greinum.

Í stigakeppni skólanna varð Lundarskóli hlutskarpastur, annað árið í röð, en Brekkuskóli og Naustaskóli urðu jafnir í 2.-3. sæti. 

Í hverjum árgangi fyrir sig voru stigahæstu skólarnir eftirtaldir

4. bekkur: Lundarskóli



5. bekkur: Lundarskóli

6. bekkur: Lundarskóli

7. bekkur: Brekkuskóli

UFA og skólarnir hjálpuðust að við að halda mótið. Til viðbótar við þjálfara og aðra liðsmenn UFA þá komu góðir hópar krakkar úr 8-10. bekkjum til mælinga ásamt því að íþróttakennarar og aðrir starfsmenn skólanna gripu í mælingar/skráningu og önnur tilfallandi verkefni þegar á þurfti að halda. Við hjá UFA viljum þakka skólunum fyrir samstarfið um þetta mót sem er virkilega skemmtilegt og gefandi. UFA þakkar einning Akureyrarbæ og Heilsueflandi samfélagi fyrir styrk til að halda mótið,“ segir einnig í umfjöllun á ufa.is.