Fara í efni
Frjálsíþróttir

Hafdís og Baldvin Þór urðu Íslandsmeistarar

Baldvin Þór Magnússon og Hafdís Sigurðardóttir á Meistaramóti Íslands um síðustu helgi. Myndir frá Frjálsíþróttasambandi Íslands.

Hafdís Sigurðardóttir og Baldvin Þór Magnússon úr Ungmennafélagi Akureyrar (UFA) urðu Íslandsmeistarar þegar Meistaramót Íslands í frjálsíþróttum fór fram á ÍR-vellinum í Reykjavík um nýliðna helgi.

  • Hafdís varð Íslandsmeistari í langstökki með stökki upp á 6,29 metra, eftir æsispennandi sentimetrastríð við Irmu Gunnarsdóttur sem varð önnur með 6,28 m.
  • Baldvin Þór Magnússon sigraði með miklum yfirburðum og á nýju meistaramótsmeti í 5000m hlaupi. Baldvin kom í mark á tímanum 13:56,91 mín. en fyrra metið átti Hlynur Andrésson og var það 14:13,92 mín, sett á síðasta ári.

Fimm fulltrúar UFA kepptu á mótinu og fengu alls þrenn verðlaun; Hafdís og Baldvin fóru heim með gull og Sindri Lárusson varð í öðru sæti í kúluvarpi og hreppti þar með silfurverðlaun. Hann kastaði lengst 16,24 metra. Íslandsmeistarinn, Guðni Valur Guðnason úr ÍR, kastaði lengst 18,07 m.

Sigurlaug Anna Sveinsdóttir (UFA) hljóp 100 m á 13,32 sek og stökk 4,82 m í langstökki.

Stefanía Daney Guðmundsdóttir (EIK/UFA) stökk 5,16 m í langstökki.

Kolbeinn enn undir Íslandsmetinu

Þá er er vert að geta þess að Akureyringurinn Kolbeinn Höður Gunnarsson, sem keppir fyrir FH og hefur verið í miklum ham undanfarið, hljóp í tvígang undir gildandi Íslandsmeti í 100 metra hlaupi. Í bæði skiptin var meðvindur því miður of mikill þannig að met fæst ekki staðfest en þess verður varla langt að bæta að Kolbeinn slær Íslandsmetið.

Kolbeinn Höður jafnaði Íslandsmet Ara Braga Kárasonar – 10,51 sek. – á móti í Noregi í byrjun júní og hefur síðan fjórum sinnum hlaupið 100 metrana á betri tíma, en alltaf í of miklum meðvindi.

Meðvindur má ekki vera meira en 2 metrar á sekúndu til þess að met sé staðfest. Þegar Kolbeinn hljóp á 10,40 í undanúrslitum á Meistaramótinu var meðvindur 2,1 m á sek og í úrslitahlaupinu, þegar hann hljóp á 10,38 sek. var meðvindur 3,3 m á sek.

Sindri Lárusson kastar kúlu á Meistaramóti Íslands um síðustu helgi. Hann varð í öðru sæti í keppninni.

Hafdís Sigurðardóttir hreppti gullverðlaunin í langstökki eftir æsispennandi keppni.

Baldvin Þór Magnússon virkar aleinn og yfirgefinn í 5.000 metra hlaupinu, enda sigraði hann með miklum yfirburðum og á nýju mótsmeti.